Fara í efni

Rannsóknastöðin Rif auglýsir eftir forstöðumanni

Rannsóknastöðin Rif auglýsir eftir forstöðumanni

Rannsóknastöðin Rif stendur á tímamótum og auglýsir laust til umsóknar starf forstöðumanns. Um fullt starf er að ræða og starfsstöðin er á Raufarhöfn. 

Rannsóknastöðin vinnur að eflingu vöktunar og rannsókna á náttúru Melrakkasléttu og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi um náttúrufarsrannsóknir á norðurslóðum.  Rif hefur vaxið mjög frá stofnun árið 2014 og spennandi uppbygging er fyrirhuguð á næstu árum.  Starf forstöðumanns veitir mikla möguleika á því að leiða fjölbreytt og krefjandi verkefni og móta starf stofnunarinnar til framtíðar.  Æskilegt er að nýr forstöðumaður geti tekið til starfa sem fyrst.  

Frekari upplýsingar um helstu verkefni og menntunar- og hæfnikröfur er að finna í meðfylgjandi auglýsingu

Umsóknarfrestur er til 31. mars 2021.  

Um Rif:
Rannsóknastöðin Rif var formlega stofnuð þann 23. maí 2014 en stofnun hennar á sér nokkurn aðdraganda. Í ljósi hraðrar fólksfækkunar á Raufarhöfn ákvað Byggðastofnun árið 2013 að prófa nýjar leiðir til að styrkja byggð á Raufarhöfn í samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Háskólann á Akureyri og heimamenn. Hrundið var af stað sérstöku átaksverkefni og var kallað eftir hugmyndum um eflingu samfélagsins, m.a. á íbúafundum. Náttúrustofa Norðausturlands, sem rekin er m.a. af sveitarfélaginu Norðurþingi, skilaði inn tillögu að uppbyggingu rannsóknastöðvar á Raufarhöfn. Henni yrði ætlað að efla vísindastarf á Melrakkasléttu, m.a. með því að laða að bæði innlenda og erlenda vísindamenn. Hugmyndinni var vel tekið, enda bjóða bæði innviðir á Raufarhöfn og náttúrufar Melrakkasléttu upp á mikla möguleika í rannsóknum á vistkerfi norðurslóða og áhrifum loftslagsbreytinga.

 

Getum við bætt síðuna?