Fara í efni

Rafrænt málþing um störf óháð staðsetningu - Fólk færir störf

Rafrænt málþing um störf óháð staðsetningu - Fólk færir störf

Akureyrarstofa og SSNE, samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, standa fyrir rafrænu málþingi þann 28. janúar næstkomandi. Þar verður ljósinu varpað á ört vaxandi möguleika sem felast í störfum sem eru óháð staðsetningu.

Rætt verður um tækifæri og áskoranir sem felast í flutningi fólks og starfa og sagðar áhugaverðar reynslusögur frá fyrirtækjum og opinberum stofnunum.

Umræða um færanleika fólks og starfa hefur aukist samhliða heimsfaraldrinum, enda hefur aukin fjarvinna opnað augu margra fyrir tækifærum. Markmið stjórnvalda er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði „án staðsetningar“ árið 2024, það er að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki.

  • Hvernig miðar þessari áætlun og hvaða áhrif hefur þessi þróun á byggðamál?

  • Hver er reynsla þeirra sem hafa flutt störf á milli landshluta?

  • Hvernig eru aðstæður á Akureyri og Norðurlandi eystra til að taka á móti væntanlegum íbúum sem vilja taka starfið sitt með?

Þessum spurningum og mörgum öðrum verður svarað. Rætt verður um tækifæri og áskoranir sem felast í flutningi fólks og starfa og sagðar áhugaverðar reynslusögur frá fyrirtækjum og stofnunum.

Málþingið er öllum opið en stjórnendur fyrirtækja og stofnana eru sérstaklega hvattir til að taka þátt.

Sjá Facebook-viðburð málþingsins.

Dagskrá:
  • 13:00 - Málþing hefst
  • Ávarp - Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sveitarstjórnarmála.
  • Störf án staðsetningar: Möguleikar og kortlagning - Laufey Kristín Skúladóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun.
  • Efla - út um borg og bý - Ingibjörg Sigrún Stefánsdóttir mannauðsstjóri Eflu.
  • Spjallborð - Svavar Pálsson sýslumaður á Norðurlandi eystra, Atli Örvarsson tónskáld, Katrín Björg Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu og Þórleifur Stefán Björnsson framkvæmdastjóri T plús.
  • Að láta verkin tala - Ólafur Helgi Rögnvaldsson hugbúnaðarsérfræðingur hjá Five Degrees.
  • Matís um allt land - Bryndís Björnsdóttir sérfræðingur hjá Matís.
  • Almennar umræður
  • 15:00 - Málþingi lýkur
Fundarstjóri: Erla Björg Guðmundsdóttir mannauðsstjóri hjá Norðurorku.
Taktu tímann frá - allir velkomnir!
Getum við bætt síðuna?