Fara í efni

Ráðuneyti og SSNE vinna saman að útfærslu söfnunar dýraleifa á landsvísu

Frá heimsókn til GMM í Finnlandi
Frá heimsókn til GMM í Finnlandi

Ráðuneyti og SSNE vinna saman að útfærslu söfnunar dýraleifa á landsvísu

Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið og SSNE hafa sett af stað vinnu við útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu, í áhættuflokki 1, með það að markmiði að efnið komist í viðeigandi úrvinnslu eða förgun. Með þessari aðgerð er brugðist við úrskurði eftirlitsstofnunar EFTA um að Ísland hafi ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart EES samningnum þegar kemur að því að tryggja að dýraleifum í efsta áhættuflokki sé safnað.

Tillaga að söfnunarkerfi verður unnin í samstarfi við Líforkuver ehf. og finnska ráðgjafafyrirtækið GMM, sem hefur áralanga reynslu af söfnun og meðhöndlun dýraleifa. Byggt verður á verklagi sem notast er við bæði í Finnlandi og Noregi, en SSNE skipulagði kynnisferð til þeirra landa á síðasta ári þar sem hag- og fagaðilar fengu kynningar á söfnun, meðhöndlun og vinnslu á dýraleifum í efsta áhættuflokki í báðum löndum.

Söfnun og rétt meðhöndlun dýraleifa er mikilvægur liður í innleiðingu hringrásarhagkerfis; urðun dýrahræja hefur í för með sér umtalsverða losun gróðurhúsalofttegunda og unnt er að vinna orkugjafa úr efninu sem dregur úr notkun jarðefnaeldsneytis. Verkefnið er þó ekki síst mikilvægt þegar kemur að heilbrigði manna og dýra, ímyndar íslensks landbúnaðar og til að draga úr líkum á útbreiðslu búfjársjúkdóma. Það er því sérlega ánægjulegt að bæði ráðuneyti umhverfismála og matvæla sameinist um að vinna tillögu að útfærslu kerfisins í samstarfi við SSNE. 

Nánar má lesa um verkefnið á vef Stjórnarráðsins. 

Getum við bætt síðuna?