Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra - Maí

Pistill framkvæmdastjóra - Maí

Það er að koma júní og sumarið loks farið að láta kræla á sér. Maímánuður hefur verið viðburðaríkur hjá SSNE og höfum við verið að vinna að fjölbreyttum verkefnum og viðburðum um allt starfssvæðið. Þannig hefur starfsfólk okkar m.a. verið að vinna með sveitarfélögum á starfssvæðinu að mótun fjárfestingatækifæra og eflingu innviða.

Fjölmargir styrktarsjóðir úthlutuðu nú í maí og var gleðilegt að sjá verkefni hér á Norðurlandi eystra hljóta styrki og má þar til að mynda nefna verkefnið Tungubrestur og listsköpun sem fékk styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands en það verkefni felur í sér listasmiðju á Bakkafirði þar sem ungt fólk fær tækifæri til að kynna sér þjóðsögur sem tengjast Bakkafirði og svæðinu í kring, fjölbreyttum listformum og búa til listaverk úr efnivið sagnanna í samstarfi við listafólk. Nú í byrjun júní eru einmitt umsóknarfrestir í ýmsa sjóði fyrir frumkvöðla, starfandi fyrirtæki og sveitarfélög, en fylgjast má með þeim helstu inn á viðburðadagatalinu okkar á heimasíðunni, www.ssne.is.

Nú um mánaðarmótin kveður Smári Jónas Lúðvíksson verkefnastjóri umhverfismála okkur hjá SSNE en hann er nú að flytja í heimahagana á Snæfellsnesi og mun vinna að umhverfismálum hjá Snæfellsbæ. Við samstarfsfólk hans hjá SSNE munum sannarlega sakna hans góðu verka hjá félaginu og þökkum samstarfið síðustu árin, en óskum honum einnig velfarnaðar í nýjum störfum og alls hins besta í framtíðinni.

Annars það sumarið framundan með sín blóm í haga og allt farið að blómstra. Sveitarfélög og einstaklingar um allan landshlutann eru nú á fullu að skipuleggja bæjarhátíðir og viðburði og má ætla að 17. júní verði sérstaklega hátíðlegur í ár í ljósi 80 ára lýðveldisafmælis Íslands. Starfsemi SSNE verður auðvitað í fullum gangi í júní mánuði, en eins og áður verða skrifstofurnar okkar lokaðar í lok júlí en það verður auglýst sérstaklega þegar þar að kemur. Ég minni á að starfsfólk SSNE er víðsvegar um landshlutann og okkur finnst alltaf skemmtilegt að taka á móti góðum gestum. Það er alltaf heitt á könnunni og öll velkomin, hvort sem er í atvinnuráðgjöf eða til skrafs og ráðagerða.

Getum við bætt síðuna?