Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra - júní

Pistill framkvæmdastjóra - júní

Júnímánuður hófst með krafti hjá SSNE en í byrjun mánaðarins hélt stjórn SSNE 74. fund sinn í Eyjafjarðarsveit. Stjórn SSNE hittist alla jafna á fjarfundi en tvisvar á ári eru haldnir staðfundir er þá tækifærið nýtt og ólík sveitarfélög heimsótt. Þetta gefur stjórnarfólki sem kemur frá ólíkum sveitarfélögum gagnlega innsýn í starfsemi ólíkra sveitarfélaga og margt sem hægt er að læra af hvort öðru.

Annars má segja að júní hafi einkennst af fjölbreyttum verkefnum hjá SSNE, einkum í tengslum við nýsköpun og atvinnuþróun. Síðustu mánaðarmót komu miður góðar fréttir frá Bakka við Húsavík vegna stöðu PCC BakkiSilicon og höfum við verið í vinnu ásamt sveitarfélaginu og fleirum til að reyna að styðja við atvinnulíf og íbúa á svæðinu.

Sveitarstjórar sveitarfélaganna innan SSNE, ásamt framkvæmdastjóra SSNE, funduðu með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í júní þar sem meðal annars var rætt um stöðu raforkumála á Norðurlandi eystra, stöðuna á Bakka, auk þess sem kynnt voru þau fjölmörgu tækifæri sem búa í atvinnuuppbyggingu víðsvegar innan landshlutans. Þá funduðu formaður og framkvæmdastjóri SSNE og fulltrúar EIMS með starfshópi forsætisráðuneytisins um stöðu atvinnumála í Norðurþingi, en starfshópurinn átti einnig fundi með fulltrúum PCC á Bakka, sveitstjórn Norðurþings og fulltrúum verkalýðsfélagsins Framsýnar.

Þrátt fyrir allt verð ég að segja að fyrrnefndir fundir, og raunar fjölmargt fleira í júní, gefi ástæðu til bjartsýni um áframhaldandi uppbyggingu í landshlutanum. Þannig var opnað fyrir umsóknir í Startup Landið, sjö vikna viðskiptahraðal sem ætlaður er frumkvöðlum og nýsköpunarverkefnum á landsbyggðunum. Hraðallinn hefst 18. september og lýkur með lokaviðburði 30. október þar sem þátttakendur kynna verkefni sín. Með þessum hraðli eru landshlutasamtök utan höfuðborgarsvæðisins að taka höndum saman til að efla enn frekar stuðning við frumkvöðla og nýsköpun um land allt. Það var einnig afar gleðilegt þegar bárust fréttir af því að hraðallinn fengi stuðning frá Lóunni – styrkjum til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni.

Við látum þó ekki þar staðar numið, en í vikunni var undirritaður samningur við Drift EA um Kveikjuna, áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, sem hefur það að markmiði að efla nýsköpun og þróun á Norðurlandi eystra innan starfandi fyrirtækja. Þá var nú í vikunni auglýst eftir hugmyndum í tengslum við Hönnunarþing 2025 sem haldið verður að venju á Húsavík í lok september en í ár verður áhersla á verkefni sen snúa að hönnun, nýsköpun og mat.

Við höfum svo í júní farið í nokkuð margar fyrirtækjaheimsóknir. Þar á meðal má nefna heimsóknir í nokkur fyrirtæki í Mývatnssveit og er greinilegt að þar er mikill hugur í fólki. Spennandi uppbygging framundan hjá Mýsköpun og GeoSilica að hefja starfsemi á Þeistareykjum, svo fátt eitt sé nefnt.

Við hjá SSNE höldum áfram af krafti inn í sumarið en ágætt er að nefna hér í lokin að skrifstofur SSNE verða lokaðar frá 14. júlí til 5. ágúst, en flest starfsfólk okkar verður í sumarleyfi á þessum tíma. Eftir sem áður má senda erindi til starfsfólks í tölvupósti sem svarar þegar það snýr aftur úr sumarleyfi.

Með kærri kveðju og ósk um gott sumar!

Getum við bætt síðuna?