Pistill framkvæmdastjóra
Pistill framkvæmdastjóra
Það má segja að nóvembermánuður hafi verið fjölbreyttur í starfsemi SSNE, enda einkenndist hann af fjölmörgum viðburðum og ákvörðunum sem má með sanni segja að munu hafa áhrif langt inn í framtíðina.
Við hófum mánuðinn í Mývatnssveit þar sem fram fór Byggðaráðstefnan 2025 en það er ráðstefna um byggðarannsóknir sem Byggðastofnun stendur fyrir, í samstarfi við landshlutasamtökin. Þarna komu því annars vegar saman fjölmargir sérfræðingar á sviði byggðamála og félagslegs fjölbreytileika og hins vegar stór hluti starfsfólks landshlutasamtaka sveitarfélaga og Byggðastofnunar. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Félagslegur fjölbreytileiki samfélaga, jafnvægi, áskoranir eða vannýtt sóknarfæri?“ og er óhætt að segja að erindi ráðstefnunnar hafi verið fjölbreytt. Fyrir áhugasama má nálgast upptöku frá ráðstefnunni hér. Í framhaldi ráðstefnunnar var haldinn haustfundur landshlutasamtakanna og Byggðastofnunar og funduðu þar saman starfsfólk landshlutasamtakanna og Byggðastofnunar og ræddu sameiginleg verkefni, auk þess sem haldin var vinnustofa um nýja byggðaáætlun sem nú er í vinnslu hjá innviðaráðuneyti.
Í byrjun nóvember voru kynntar stórar og jákvæðar fréttir um uppbyggingu flutningskerfis raforku á Langanesi. Þarna má fullyrða að ráðherra hafi hoggið á hnút sem lengi hefur tafið uppbyggingu á Langanesinu og felur ákvörðunin í sér að ráðist verður í bæði 132 kV loftlínu yfir Melrakkasléttu og 33 kV jarðstreng frá Vopnafirði til Þórshafnar. Þetta er mikið framfaraskref fyrir svæðið — bæði sem grunnur að traustri dreifingu fyrir heimili og fyrirtæki, og sem lykilforsenda nýrrar orku- og atvinnuuppbyggingar. Þá mun uppfærsla og uppbygging tengivirkis á Bakka skapa tækifæri fyrir fjölbreyttari iðnað á svæðinu. Með þessum ákvörðunum má segja að orkuöryggi hafi verið styrkt, rekstrarumhverfi eflt og landshlutinn betur búinn undir uppbyggingu og nýsköpun sem byggir á grænni orku.
Þá var um miðjan mánuðinn haldin öflug ráðstefna á Húsavík í samstarfi Eims, Norðurþings, Landsvirkjunar og Íslandsstofu þar sem fjallað var um hugmynd að hringrásargarði á Bakka. Það var okkur hjá SSNE sönn ánægja að hjálpa þar til. Markmið ráðstefnunnar var að kynna þá vinnu sem hefur verið unnin varðandi hringrásargarð og atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík og heppnaðist hún afar vel. Slík verkefni eru jafnframt mikilvægur liður í því að höfða til erlendra fjárfesta sem sækja í stöðugt rekstrarumhverfi, græna orku, góð landrými og skýra framtíðarsýn.
Í þessu samhengi er ekki hjá því komist að nefna mikilvægi millilandaflugs um Akureyrarflugvöll. Ályktun sem samþykkt var á haustþingi SSNE í október undirstrikar einmitt nauðsyn þess að efla flugþróunarsjóð og tryggja markvissa stjórn og framtíðarsýn fyrir alþjóðaflug á Akureyri. Eins og Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður stjórnar SSNE kom inn á í grein sinni um mikilvægi millilandaflugs um Akureyrarflugvöll þá er millilandaflugið er ekki aðeins lífæð ferðaþjónustunnar — það er lykilforsenda þess að fjárfestar geti horft til Norðurlands eystra sem raunhæfs valkosts. Góðar alþjóðatengingar styðja við uppbyggingu á Norðurlandi eystra og raunar langt út fyrir landshlutann. Flugvöllurinn styður einnig við nýsköpunarstarfsemi á svæðinu og fjölbreytt verkefni sem kalla á stöðugt flæði fólks og hugmynda. Við höfum einstakt tækifæri til að byggja upp samkeppnishæft umhverfi þar sem flug, orka og tækifæri til uppbyggingar mynda sterka heild sem laðar að bæði fyrirtæki og fjárfesta.
Annars nálgast nú jólin hratt og ótrúlegt en satt fer enn einu árinu að ljúka. Ég vil nýta tækifærið og þakka samstarfsaðilum, sveitarfélögunum og starfsfólki fyrir öflugt ár sem var sannarlega fullt af spennandi verkefnum. Í því samhengi vil ég að lokum nefna að skrifstofur SSNE verða lokaðar frá Þorláksmessu og opna aftur mánudaginn 5. janúar.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar aðventu og hlakka til áframhaldandi samstarfs á nýju ári — með nýjum og spennandi verkefnum og tækifærum fyrir Norðurland eystra.
Albertína Fr. Elíasdóttir