Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra

Pistill framkvæmdastjóra

Októbermánuður hefur verið virkilega fjölbreyttur og skemmtilegur hjá SSNE og er mánaðarpistillinn í lengra lagi hjá mér.

Startup Landið – viðskipthraðall hélt lokaviðburð sinn fimmtudaginn 30. október í Hofi á Akureyri. Þar kynntu teymi úr öllum landshlutum, utan höfðborgarsvæðisins, verkefni sín og má með sanni segja að þau hafi verið hvert öðru betra. Startup Landið sýndi vel hversu miklu samstarf milli landshluta, metnaður og hugmyndaauðgi getur skilað inn í samfélögin okkar. Það má því einnig fagna því hversu mikið er að gerast í bæði atvinnu- og menningarlífi landshlutans, en í lok mánaðarins rann út umsóknarfrestur fyrir Uppbyggingarsjóð Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Úthlutunarnefnd sjóðsins situr nú sveitt við að fara yfir umsóknir og leggja mat á þau verkefni sem bárust, en alls bárust 127 fjölbreyttar umsóknir um styrki á sviði atvinnu- og nýsköpunar og menningar- og samfélags. Það verður sannarlega spennandi að sjá hvaða verkefni verða fyrir valinu en stefnt er að því að halda rafræna úthlutunarhátíð 10. desember næstkomandi.

Þennan sama dag, þann 30. október, var einnig stigið það dýrmæta skref að stofna Farsældarráð Norðurlands eystra og þar með nýr kafli opnaður í samvinnu í þágu farsældar barna í landshlutanum. Farsældarráðinu er ætlað að vera vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar og samráðs í samræmi við lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og eru verkefni þess því vel í samræmi við eitt megin hlutverk SSNE sem er að vera samráðsvettvangur sveitarfélaganna innan landshlutans. Við væntum mikils af samstarfinu en þeirra fyrsta verkefni verður að vinna fjögurra ára áætlun um forgangsröðun aðgerða um farsæld barna.

Þá var í lok mánaðarins haldið rafrænt haustþing SSNE en þar komu saman þingfulltrúar sveitarfélaganna og aðrir gestir samkvæmt samþykktum SSNE, en afar ánægjulegt var að í ár var 100% mæting þingfulltrúa og sköpuðust góðar umræður um ýmis sameiginleg hagsmunamál landshlutans. Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur ályktanir þingsins sem munu móta vinnu SSNE næstu mánuði og ár. Þar voru meðal annars send þessi skýru skilaboð til Alþingis og stjórnarráðsins:

Á Norðurland eystra eru mikil tækifæri til uppbyggingar á enn öflugra atvinnulífi. Þar býr öflugt samfélag fólks, fyrirtækja og stofnana sem eru tilbúin til sóknar – með fjölbreytt atvinnulíf, framsækna menntastarfsemi og ríka sköpunargleði. Landshlutinn hefur alla burði til að verða einn af drifkröftum nýs vaxtarskeiðs á Íslandi – en til þess þarf skýra framtíðarsýn, jöfnun aðbúnaðar og markvissa fjárfestingu í innviðum, nýsköpun og menntun.

Það voru þó ekki aðeins fjölmargir viðburðir sem einkenndu starfsemi SSNE þennan mánuðinn. Það var stór stund þegar þingsályktun um borgarstefnu var samþykkt á Alþingi en þar er Akureyri skilgreind sem svæðisborg – nokkuð sem eflir sannarlega hlutverk Akureyrar sem burðarás þjónustu, mannlífs, menntunar og nýsköpunar langt út fyrir landshlutann. Þetta hefur verið baráttumál SSNE lengi enda fagnaði haustþing SSNE þessari nýsamþykktu borgarstefnu og skoraði á stjórnvöld að leggja fram sem fyrst aðgerðaráætlun um framkvæmd hennar. SSNE og sveitarfélögin innan landshlutans lýstu sig einnig reiðubúin að koma að vinnu við skilgreiningu svæðisborgarinnar og hlutverks hennar. Næsta skref nú er hjá innviðaráðuneytinu að vinna aðgerðaráætlun fyrir borgarstefnuna og mun það vonandi gerast hratt og örugglega.

Þá skilaði starfshópur forsætisráðherra um atvinnumál á Húsavík og nágrenni skýrslu sinni um miðjan mánuðinn og var hún sama dag tekin fyrir í ríkisstjórn. Í skýrslunni er lögð áhersla á að mikil tækifæri séu til staðar varðandi uppbyggingu atvinnustarfsemi á Bakka. Þar hafi verið byggðir upp öflugir innviðir og mikið starf unnið við þróun græns iðngarðs sem geri svæðið eftirsóknarvert fyrir fjárfesta. Skýrslan er mikilvægur grunnur fyrir Norðurþing til að halda áfram metnaðarfullri uppbyggingu á Bakka, þar sem horft er bæði til nýrrar starfsemi og frekari þróunar á þeim innviðum sem nú þegar hafa verið lagðir. Skýrslan staðfestir einnig á skýran hátt það sem SSNE og sveitarfélögin á Norðurlandi eystra hafa lengi bent á – að gríðarleg tækifæri liggja í uppbyggingu á Norðurlandi eystra, ekki síst á sviði grænnar orku, sjálfbærrar iðnaðarstarfsemi og nýsköpunar.

Skýrslan markar því mikilvægt skref fram á við í því að tryggja að Norðurþing og svæðið allt geti nýtt sér styrkleika sína til fulls. Þess má geta að þann 20. nóvember næstkomandi standa Eimur, Norðurþing, Landsvirkjun og Íslandsstofa fyrir ráðstefnu á Húsavík um framtíð Bakka við Húsavík sem miðstöð sjálfbærrar atvinnuuppbyggingar. Ráðstefnan verður haldin undir yfirskriftinni Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og mun veita gott tækifæri til að ræða hvernig við nýtum sameiginlega krafta til að skapa störf, verðmæti og framtíðarmöguleika á svæðinu. Það er ljóst að framtíðin á Bakka er björt – og hún er hluti af stærri sókn Norðurlands eystra. Ég hvet ykkur öll til þátttöku.

Getum við bætt síðuna?