Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra

Pistill framkvæmdastjóra

Við hjá SSNE erum svo heppin að fá að vinna á hverjum degi með frumkvöðlum, fyrirtækjum og einstaklingum sem vinna að nýsköpun á Norðurlandi eystra. Við búum svo vel á Norðurlandi eystra að hér sameinast hæft vinnuafl, öflug fyrirtæki og stofnanir, rík menning, og einstök náttúra sem í sameiningu skapar hvata til að hugsa í lausnum. Það sem skiptir þó mestu máli er að á svæðinu ríkir vilji og þor til að taka þátt í breytingum – og skapa framtíðina hérna heima. Í því samhengi má nefna hversu dýrmætt það er að fylgjast með framtaki Drift EA vaxa og dafna, enda sýnir starfsemi þeirra vel hvernig nýsköpunarstarf í landshlutanum er að eflast. Það sama má segja um þau skref sem Háskólinn á Akureyri hefur stigið, og eins Hraðið á Húsavík.

Þegar við ræðum um nýsköpun gleymist þó oft að hún snýst ekki aðeins um tæknilausnir. Nýsköpun snýst líka um að finna nýjar leiðir, hvort sem er í sjávarútvegi, landbúnaði, ferðaþjónustu – í orkumálum, menningu eða í samfélagsþróun. Nýsköpun er drifkraftur sem getur skapað störf framtíðarinnar, aukið fjölbreytni í atvinnulífinu og styrkt samfélögin okkar.

Hjá SSNE hefur í september verið unnið að fjölbreyttum verkefnum og eins og svo oft á haustin þá hefur verið mikið um að vera og haustið farið af stað með krafti. Við tókum t.a.m. þátt í að undirbúa vel heppnaðan súpufund atvinnulífsins, ásamt Akureyrbæ, Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík, um tæknifræðinám við Háskólann á Akureyri sem haldið var í Drift EA, þá héldum við vel sóttan opinn fund ásamt Samtökum iðnaðarins um atvinnumál og innviði á Norðurlandi í Hofi. Við hrintum af stað vinnu við sameiginlega loftslagsstefnu landshlutans í samstarfi allra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, og þá tókum við virkan þátt undirbúningi og framkvæmd kraftmikils HönnunarÞings sem haldið var á Stéttinni á Húsavík um liðna helgi. Þá tók starfsfólk okkar þátt í fjölmörgum fundum og ráðstefnum, þar sem oftar en ekki var rætt um þau fjölmörgu tækifæri sem búa til fjárfestinga og nýsköpunar á Norðurlandi eystra. Það er okkur mikilvægt að kynna sem víðast að hér er bæði hægt að búa vel og byggja upp atvinnulíf sem stenst alþjóðlega samkeppni.

Við ætlum að tryggja áframhaldandi uppbyggingu landshlutans og það gerum við meðal annars með því að efla nýsköpun og fjárfestingar í á fjölbreyttum sviðum. Eitt af stóru verkefnum SSNE er að halda utan um Uppbyggingarsjóð Sóknaráætlunar Norðurlands eystra en opnað var fyrir umsóknir í sjóðinn 17. september síðastliðinn og verður opið fyrir umsóknir til hádegis 22. október næstkomandi. Uppbyggingarsjóður er samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styðja við verkefni sem falla að Sóknaráætlun Norðurlands eystra í þremur flokkum; atvinnulífs, blómlegra byggða og stofn- og rekstrarstyrkir á sviði menningar.

Íbúar á Norðurlandi eystra hafa ávallt sýnt að í þeim býr hugvit, kraftur og samheldni. Með því að efla innviði og skapa umhverfi þar sem nýjar hugmyndir fá að blómstra, mun svæðið standa sterkt til framtíðar. Við hjá SSNE höldum áfram að vinna að því; bæði með beinum stuðningi og ráðgjöf við atvinnulíf, menningu og samfélag, og með því að þrýsta á stjórnvöld að efla og styrkja innviði.

Getum við bætt síðuna?