Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra

Pistill framkvæmdastjóra

Það er alltaf jafn gleðilegt þegar birta tekur og léttir yfir öllum. Við hjá SSNE höfum lítið látið veður né vinda trufla okkur heldur tókum þátt í því að fanga Norðanáttina á fjárfestahátíð á Siglufirði í vikunni. Það er ekki ofsögum sagt að vel hafi tekist til en uppselt var á hátíðina í ár og voru verkefnin sem þarna voru kynnt hvert öðru glæsilegra. Á bak við hátíðina standa fjölmargir aðilar með EIM í forystu ásamt okkur hjá SSNE og SSNV. Við þökkum auðvitað teyminu á bak við hátíðina vel fyrir sína vinnu og hlökkum strax til að taka þátt í næstu hátíð sem verður 20. mars á næsta ári.

Það má annars með sanni segja að stuðningur við frumkvöðla hafi einkennt starfsemi mánaðarins, en í febrúar og mars bauð SSNE í samstarfi við SSNV og EIM upp á svokölluð frumkvöðlahádegi sem voru vikuleg fræðsluerindi fyrir frumkvöðla og öll þau sem eru forvitin um nýsköpunarheiminn. Fyrsta erindið var haldið 24. janúar en það síðasta 14. mars. Þessar kynningar mæltust virkilega vel fyrir og voru um tvö hundruð manns sem tóku þátt. Þarna var greinilega verið að svara ákveðinni þörf og munum við án efa endurtaka þetta síðar.

Annars er apríl mánuður spennandi hjá okkur sem stöndum að SSNE, en strax eftir páska eða 14.-15. apríl næstkomandi höldum við ársþing SSNE á Siglufirði í þetta skiptið. Þar munu koma saman fulltrúar sveitarfélaganna í landshlutanum að ræða sameiginleg hagsmunamál og starfsemi samtakanna. Ég minni á að ársþing og önnur þing samtakanna eru öllum opin og eru öll velkominn sem hafa áhuga á að mæta.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegra páska og vona að þið njótið páskahátíðarinnar og páskaeggjanna.

Getum við bætt síðuna?