Fara í efni

Opið fyrir umsóknir í Eyrarrósina

Opið fyrir umsóknir í Eyrarrósina

Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Hún beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista og berast umsóknir um Eyrarrósina hvaðanæva af landinu ár hvert. Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíðin í Reykjavík. Eyrarrósin hefur verið veitt frá árinu 2005 en Þjóðlagahátíðin á Siglufirði var fyrsta verkefnið sem hlaut þessa viðurkenningu.

Fram til þessa hefur fyrirkomulag um Eyrarrósarlistann og tilnefningar verið með svipuðu sniði, en í framhaldi af endurnýjun samstarfssamings hefur það verið endurskoðað með það að markmiði að styrkja Eyrarrósina enn frekar sem raunverulegan bakhjarl lista- og menningarlífs utan höfuðborgarsvæðisins. Í því ferli var samráð haft við menningarfulltrúa landsbyggðarinnar.

Fyrirkomulagið frá 2021 var breytt þannig;

Eyrarrósin verður hér eftir veitt annað hvert ár í stað hvers árs.
Eyrarrósin er ekki veitt á því ári sem Listahátíð Reykjavíkur fer fram - Með því að veita viðurkenninguna annað hvert ár skapast svigrúm til þess að gera verðlaunahöfum mun hærra undir höfði en verið hefur og bjóða þeim beina aðkomu að Listahátíð í Reykjavík árið eftir.
Viðurkenningin er sem fyrr veitt verkefni sem hefur fest sig rækilega í sessi utan höfuðborgarsvæðisins (þarf að hafa verið í gangi í að minnsta kosti þrjú undangengin ár), er vel rekið, með skýra framtíðarsýn og hefur sannarlega listrænt og menningarlegt gildi.

Verðlaunafé til Eyrarrósarhafa er aukið úr 2 milljónum í 2,5 milljónir
.

Stutt og vandað heimildamyndband verður framleitt um Eyrarrósarhafann.

Eyrarrósarhafa verður boðið að standa að veglegum viðburði á Listahátíð árið eftir að viðurkenningin er veitt.
Í samstarfi og virku samtali við Listahátíð verður Eyrarrósarhafa boðið að standa að veglegum viðburði á Listahátíð í Reykjavík árið eftir að viðurkenning er veitt. Boðinu fylgir fjárhagslegur stuðningur til framleðslu viðburðar og fyrir mögulegum flutnings- og ferðakostnaði. Viðburðurinn verður kynntur sem hluti af aðaldagskrá hátíðarinnar. Staðsetning og fyrirkomulag viðburðarins er ákveðið í samráði við stjórnendur Listahátíðar í Reykjavík hverju sinni.

Eyrarrósarlistinn og tilnefningar til Eyrarrósarinnar verða lagðar niður en þess í stað veitt þrenn 750 þúsund króna hvatningarverðlaun.
Við val á handhöfum hvatningaverðlauna verður eftirfarandi haft að leiðarljósi:

-Að verkefnið sé yngra en þriggja ára eða jafnvel enn í þróun.
- Að verkefnið hafi alla burði til þess að festa sig varanlega í sessi.
- Að verkefnið hafi listrænan og samfélagslegan slagkraft.
- Að framtíðarsýn fyrir verkefnið sé skýr og stórhuga.
- Að verkefnið sé viðbót við menningarlandslagið í sínu nærumhverfi og auki fjölbreytileika menningarframboðs.
- Að verkefnið sé ekki á vegum opinberra aðila eða rekið í hagnaðarskyni.

Valnefnd er skipuð fulltrúum frá Byggðastofnun, Icelandair og Listahátíð í Reykjavík auk menningarfulltrúa af starfssvæði Byggðastofnunar. Metið er eftir þeim þáttum sem koma fram hér á undan.

Eyrarrósin verður veitt í 17. sinn í maí 2021 og er það verndari Eyrarrósarinnar, frú Eliza Reid sem afhendir verðlaunin.

Frá afhendingarhátíð árið 2020 á Bessastöðum þar sem Skjaldborg - Hátíð íslenskra heimildarmynda á Patreksfirði hlaut Eyrarrósina.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að senda á artfest@artfest.is

Umsóknarfrestur er mánudaginn 26.apríl 2021 kl 16:00
Hér er hægt að sækja um Eyrarrósina

 

Getum við bætt síðuna?