Fara í efni

Öll sveitarfélög landshlutans sótt heim af umhverfisstarfsfólki SSNE

Öll sveitarfélög landshlutans sótt heim af umhverfisstarfsfólki SSNE

Verkefnastjórar umhverfis- og loftslagsmála hjá SSNE hafa fundað með öllum sveitarfélögum landshlutans í júní og ágúst, kynnt helstu verkefni á sviðinu og um leið fengið aukna innsýn í stöðu umhverfismála í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Allsstaðar var vel tekið á móti verkefnastjórum SSNE og gagnlegt að sjá og heyra um áskoranir og tækifæri sveitarfélaganna í umhverfis- og loftslagsmálum.

Rauður þráður í samtölunum var vilji til aukins samstarfs í málaflokknum, en þrátt fyrir fjölbreytileika sveitarfélaganna 10 eru verkefnin að mörgu leyti þau sömu hjá hverju fyrir sig. Lögbundin hlutverk sveitarfélaga í málaflokknum eru mörg; skipulags- og úrgangsmál hvað fyrirferðarmest, en einnig fer hlutur loftslagsmála og aðlögunar að loftslagsbreytingum stækkandi.

SSNE heldur utan um nokkur verkefni sem sveitarfélög eru þátttakendur í og geta nýtt sér í sínu umhverfisstarfi, þar má helst nefna Græn skref SSNE, aðstoð við loftslagsstefnugerð og losunarbókhaldsvinnu auk þess sem þáttur fræðslumála hefur verið fyrirferðarmikill, m.a. með Loftum verkefninu sem unnið var af Þekkingarneti Þingeyinga og Símey. Starfsfólk SSNE hefur einnig haldið utan um samstarfsvettvang starfsfólks sveitarfélaga í umhverfismálum, þar sem kollegum okkar í SSNV var nýlega boðið að samnýta vettvanginn og afar ánægjulegt að bæta við góðu fólki í hópinn. Oft eru fáir starfsmenn með marga hatta í smærri sveitarfélögum og þá getur verið hjálplegt að hittast þvert á sveitarfélagsmörk og deila reynslu og þekkingu.

Í vetur verður áhersla lögð á loftslagsmál og úrgangsmál en hefja á loftslagsstefnuvinnu fyrir landshlutann í heild í lok þessa mánaðar, þar sem hvert og eitt sveitarfélag SSNE hefur skipað sinn fulltrúa til starfsins. Vinna við loftslagsstefnuna tengist evrópuverkefninu RECET sem SSNE tekur þátt í. Sveitarfélög svæðisins hafa þá flest skipað fulltrúa í vinnuhóp um svæðisáætlun úrgangsmála, en starfsfólk SSNE og SSNV mun verkefnastýra aðgerðum sem falla þar undir þar sem svæðisáætlunin nær yfir Norðurland allt.

Starfsfólk SSNE þakkar sveitarfélögum fyrir góðar mótttökur í sumar og gagnleg samtöl og er fullt tilhlökkunar fyrir áframhaldandi samvinnu. 

Getum við bætt síðuna?