Fara í efni

Öll sveitarfélög innan SSNE og SSNV hafa staðfest svæðisáætlun

Öll sveitarfélög innan SSNE og SSNV hafa staðfest svæðisáætlun

Öll sveitarfélög innan SSNE og SSNV hafa nú staðfest svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2023-2036. Sveitarfélögin hafa unnið sameiginlega að svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs síðan í upphafi árs 2022 og er þá þeirri vinnu senn að ljúka.

Sveitarfélögin sem um ræðir eru Húnaþing vestra, Húnabyggð, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd, Sveitarfélagið Skagafjörður, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarbær, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Norðurþing, og Langanesbyggð. Tjörneshreppur sem ekki er aðili að landshlutasamtökunum hefur einnig verið þátttakandi í verkefninu, en þau munu afgreiða áætlunina á fundi sínum síðar í mánuðinum.

Drög að svæðisáætlun voru kynnt fyrir öllum sveitarstjórnum seinni hluta árs 2022, áður en þau voru auglýst og lögð fram til almennrar kynningar. Svæðisáætlun hefur tekið breytingum frá því hún fór í kynningarferli og hvetjum við því alla sem hafa áhuga á málaflokknum að kynna sér nýjustu útgáfu hennar sæm hægt er að nálgast hér á heimasíðu SSNE. 

Stærsta breytingin sem gerð var á plagginu í ferlinu er að nákvæm greining úrgangsmála í hverju sveitarfélagi hefur verið klofin út og fylgir nú sem sjálfstæð greining til þess að styrkja áherslu svæðisáætlunar sem stefnuskjal til framtíðar. Í sama tilgangi var uppröðun kafla hagrætt svo að við lestur er byrjað á því sem skiptir mestu máli; sameiginlegri stefnu og aðgerðaráætlun í úrgangsmálum á Norðurlandi.

Litið er svo á að með staðfestingu sveitastjórna hafi svæðisáætlun tekið gildi en stefnt er að formlegum undirskriftarviðburði í lok mánaðar.

Nú hefst vinna við að mæta þeim markmiðum sem lögð eru fram í svæðisáætlun og vonumst við eftir góðu samstarfi sveitarfélaga, fyrirtækja og íbúa við að ná þeim markmiðum á næstu 12 árum og helst auðvitað fyrr.

Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2023-2036

Stöðugreining úrgangsmáli - vor 2022

Getum við bætt síðuna?