Fara í efni

Öll börn með! Öflug barnamenningarráðstefna

Hluti hópsins samankominn á Akranesi
Hluti hópsins samankominn á Akranesi

Öll börn með! Öflug barnamenningarráðstefna

„Barnamenning ein af grunnstoðum skapandi þjóðar. Hún styrkir sjálfsmynd barna, skapar tækifæri til þátttöku og nærir sköpunarkraftinn." voru meðal orða Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. 

Ráðherra, listafólk, fulltrúar menningarhúsa, safna, ráðuneyta, sveitarfélaga og landshlutasamtaka; um 80 manns af öllu landinu tóku þátt í barnamenningarráðstefnunni „Öll börn með“ sem fram fór á Akranesi 13. nóvember. Menningarfulltrúi SSNE sótti ráðstefnuna sem var samstarfsverkefni Listar fyrir alla fyrir hönd menningar-, nýsköpunar- og háskólamálaráðuneytisins, SSV og Akraneskaupstaðar, þangað sem lykilfólki í barnamenningu var boðið til stefnumótandi samtals.

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, setti ráðstefnuna þar sem hann lagði áherslu á að með því að efla barnamenningu værum við sem þjóð að fjárfesta í viðsýni, tjáningu og lýðræðislegu samfélagi. Dagskráin var í öruggum höndum Felix Bergssonar og Vigdís Jakobsdóttir stýrði öflugri hópavinnu um framtíðarsýn og stefnumótun. Meðal markmiða dagsins var að efla samvinnu og vinna að jöfnum tækifærum barna til menningar óháð búsetu. 

Dagskráin var bæði fjölbreytt og fræðandi. Felix Bergsson stýrði ráðstefnunni af öryggi og Vigdís Jakobsdóttir leiddi öfluga stefnumótunarvinnu. Kynnt voru fjölmörg metnaðarfull verkefni á sviði barnamenningar til innblásturs, meðal annars barnamenningarhátíðir sem haldnar eru víða um land, Barnamenningarsjóður, List fyrir alla, Sögur, Svakalegar sögur og Handbendi. Einnig voru kynntar niðurstöður nýrrar viðhorfskönnunar meðal skólastjórnenda og kennara varðandi aðgengi barna að menningu.

Í könnuninni kom fram að helstu hindranir þess að börn njóti menningar við sitt hæfi séu samgöngur og kostnaður, skipulag og tímasetningar, auk ójafns framboðs milli landshluta. Þá kom einnig í ljós að gæta þurfi sérstaklega vel að upplýsingamiðlun til skóla. Þátttakendur lögðu áherslu á þörfina fyrir miðlægan gagnagrunn með upplýsingum um barnamenningu, sem og mikilvægi sjóða á borð við Uppbyggingarsjóði landshlutanna og Barnamenningarsjóð.

Ráðstefnan var mikilvægur vettvangur til að miðla reynslu og styrkja fagleg tengsl milli svæða og mannauðs. Það er lykilatriði að menningarstefna verði unnin með öll börn landsins í huga. 

 

Getum við bætt síðuna?