Fara í efni

Nýsköpunarvogin 2021

Nýsköpunarvogin 2021

Ný tækni er einn helsti drifkrafur nýsköpunar hjá opinberum aðilum samkvæmt niðurstöðum úr Nýsköpunarvoginni 2021 sem nú liggja fyrir. Nýsköpunarvogin er samnorræn könnun með þann tilgang að kortleggja og meta umfang nýsköpunar hjá hinu opinbera. Könnunin hefur nú verið framkvæmd á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga í annað sinn hér á landi en hún var lögð fyrir forstöðumenn stofnana ríkisins og fulltrúa sveitarfélaga síðastliðið sumar.

Nýsköpunarvoginni er m.a. ætlað að varpa ljósi á:
• Umfang opinberrar nýsköpunar
• Hvaða þættir styðja við nýsköpun og hverjar eru hindranirnar
• Hvað einkennir vinnustaði sem eru nýskapandi og hvað einkennir vinnustaði sem eru ekki að vinna að nýsköpun
• Hvort opinberir vinnustaðir deili nýjungum sín á milli
• Hvaða virði nýsköpun skapar hjá hinu opinbera

Niðurstöður könnunarinnar fyrir árið 2021 sýna að nýsköpun hjá stofnunum ríkisins hefur aukist frá því að könnunin var fyrst gerð og má þar helst nefna að vægi tækninýjunga í nýsköpun opinberra aðila er nú orðið mun meira en áður sem er í takt við aukna áherslu stjórnvalda á stafræna þjónustu. 82% svarenda hjá ríkinu höfðu innleitt að minnsta kosti eitt nýsköpunarverkefni á síðastliðnum tveimur árum sem er aukning frá fyrri könnun.  

Helsta virði sem nýsköpun skilar hjá hinu opinbera er aukin skilvirkni en þar á eftir skilar nýsköpun sér í auknum gæðum, aukinni starfsánægju og aukinni innsýn almennings. Starfsfólk spilar stórt hlutverk þegar kemur að nýsköpun og er starfsfólk einn helsti drifkraftur nýsköpunar hjá opinberum vinnustöðum og sá þáttur sem ýtir einna mest undir verkefnin.

Allar niðurstöður fyrir ríkisstofnanir má finna HÉR.
Heildar niðurstöður fyrir ríki og sveitarfélög má finna HÉR.
Niðurstöður þvert á Norðurlöndin má finna HÉR.

Hér má lesa nánar um Nýsköpunarvogina og niðurstöður úr könnun.

Sjá einnig frétt frá Stjórnarráði: Sjúkrahúss-app, fjarvöktun vegna krabbameina og Gagnaþon fyrir umhverfið meðal nýsköpunarverkefna hins opinbera

 

 

 

 

Getum við bætt síðuna?