Fara í efni

Nýr verkefnisstjóri Glæðum Grímsey

Nýr verkefnisstjóri Glæðum Grímsey

Arna Björg Bjarnadóttir er nýráðinn verkefnisstjóri Glæðum Grímsey sem ákveðið hefur verið að framlengja til ársloka 2022.  Hún tekur við af Karen Nótt Halldórsdóttur sem við þökkum kærlega fyrir samstarfið en Karen verður verkefninu áfram innan handar sem fulltrúi íbúa í verkefnisstjórn.  

Arna er fædd og uppalin í Skagafirði, en hefur einnig sterka tengingu í Eyjafjörð og Norður-Þingeyjarsýslu þaðan sem hún á ættir að rekja. Arna er þaulkunn frumkvöðlaumhverfinu og hefur átt frumkvæði að og komið að fjölmörgum smærri og stærri nýsköpunarverkefnum. Hún ásamt þáverandi sambýlismanni kom á fót Óbyggðasetri Íslands og starfaði þar sem framkvæmdastjóri um árabil, en það er margverðlaunað nýsköpunarfyrirtæki í ferðaþjónustu. Áður starfaði hún sem forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins og stóð að uppbyggingu setursins sem formlega opnaði 2010. Þá starfaði hún um árabil sem alþjóðafulltrúi hjá Rannís. Hún var landstengiliður fyrir Íslands hönd í fjölmörgun undiráætlunum rannsóknaáætlunar ESB og sat sem fulltrúi Íslands í ýmsum alþjóðlegum nefndum. Arna hefur einnig verið virk í ýmsu félagsstarfi, setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum, komið töluvert að viðburðastjórnun, sjónvarpsþáttagerð og haldið fyrirlestra um skapandi hugsun og nýsköpun. Vorið 2019 hlaut hún hvatningarverðlaun TAK (Tengslanet austfirskra kvenna) á Austurlandi, fyrir að hafa “sýnt frumkvæði og áræðni í atvinnulífi og samfélagi ásamt því að skara fram úr í störfum sínum í þágu kvenna”. Síðustu misseri hefur Arna verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi og markþjálfi.

Arna hefur búið bæði erlendis og í Reykjavík en hugurinn hefur þó alltaf sótt út á land og býr hún nú á Akureyri. Hún hefur ætíð haft mikinn áhuga á byggðaþróun og var m.a formaður samfélagsnefndar Fljótsdalshrepps sem unnið hefur eftir módeli Brothættra byggða. Hún telur sóknarfæri landsbyggðanna og eyjanna í kringum Ísland mikil.  "Þetta eru svæði sem eru einstök á heimsmælikvarða. Við þurfum einfaldlega að þora að hugsa öðruvísi, koma auga á tækifærin og skora það sem einhverjum kann að þykja ómögulegt á hólm. Við megum síðan ekki gleyma að láta heiminn vita af okkur.”

Arna hóf störf í gær og verður með starfsstöð á skrifstofu SSNE á Akureyri auk reglulegrar viðveru í Grímsey.  Hægt er að ná í hana í arna@ssne.is.    

Getum við bætt síðuna?