Nýjar gönguleiðir á Norðurlandi eystra skráðar og aðgengilegar almenningi
Nýjar gönguleiðir á Norðurlandi eystra skráðar og aðgengilegar almenningi
Á síðasta ári var í gangi verkefni um skráningu gönguleiða á Norðurlandi eystra, sem unnið var af Markaðsstofu Norðurlands. Markmið verkefnisins var að koma á miðlægu og samræmdu skráningarkerfi fyrir gönguleiðir á svæðinu og tryggja ferðafólki áreiðanlegar upplýsingar til að auðvelda val á leiðum sem henta bæði byrjendum og reyndari göngufólki. Í verkefninu voru skráðar 20 gönguleiðir um allt Norðurland eystra sem stuðla að öruggri og ánægjulegri útivist.
Verkefnið er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, en árlega velur stjórn SSNE verkefni sem styðja við markmið Sóknaráætlunar svæðisins. Skráning gönguleiða tengist meðal annars markmiði um bætta lýðheilsu sem kom ný inn í gildandi Sóknaráætlun.
Niðurstöður verkefnisins eru nú aðgengilegar á vefnum Upplifðu Norðurland, þar sem finna má 35 fjölbreyttar gönguleiðir um allt Norðurland. Þar má skoða leiðir eftir erfiðleikastigi, lengd og staðsetningu, ásamt gagnvirku korti sem auðveldar skipulagningu ferða. Vefurinn byggir á sameiginlegum gagnagrunni Ferðamálastofu.