Fara í efni

Nóvemberpistill framkvæmdastjóra SSNE

Nóvemberpistill framkvæmdastjóra SSNE

Það er vert að byrja þennan pistil sem birtist 1. desember á að óska ykkur öllum til hamingju með daginn, en eins og flest vita vonandi þá er dagurinn í dag fullveldisdagur Íslendinga.

Það er alltaf jafn gott að setjast niður og fletta til baka í dagskránni og fara yfir á heimasíðunni hvað var helst á baugi hjá SSNE síðasta mánuðinn. Nóvember var einn af þessum mánuðum sem virtist einfaldlega hefjast og ljúka á sama deginum, svo fljótt leið tíminn. Það var þó fjölmargt markvert sem gerðist hjá okkur í þessum ágæta nóvembermánuði, fjölmargt sem markaði framfarir og jafnvel stórstíg skref á Norðurlandi eystra.

Þar verð ég fyrst að nefna Samgöngu- og innviðastefnu SSNE 2023-2033 sem samþykkt var á haustþingi SSNE í október, en var formlega útgefin nú í nóvember. Í stefnunni má sjá þau forgangsmál sem sveitarfélögin á Norðurlandi eystra hafa sameinast um að leggja áherslu á í baráttu sinni fyrir samgöngubótum, en samstaða og samvinna sveitarfélaganna skiptir lykilmáli þegar kemur að því að tryggja uppbyggingu hverskyns innviða á svæðinu. Saman erum við sterkari og fundum við það strax þegar fulltrúar stjórnar SSNE mættu til fundar við Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til að fylgja eftir umsögn SSNE um þingsályktun um samgönguáætlun sem nú liggur fyrir þinginu.

Í byrjun mánaðarins fóru fulltrúar SSNE ásamt fulltrúum frá EIMI, Vestfjarðastofu og Íslenskri Nýorku til Slóveníu til að mæta á fyrsta fund í RECET evrópuverkefninu. Fundurinn þótti afar gott upphaf þess þriggja ára samstarfs sem nú er að fara af stað.

Í nóvember lauk einnig umsóknarfresti í Uppbyggingarsjóð Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, en rafræn úthlutunarhátíð sjóðsins verður haldin 13. desember næstkomandi klukkan 15, en þá kemur í ljós hvaða verkefni hér á Norðurlandi eystra fá jólapakka úr sjóðnum í ár. Það hefur sýnt sig í gegnum árin hversu mikilvægur sjóðurinn er verkefnum á Norðurlandi eystra, bæði á sviði atvinnu- og nýsköpunar og menningar og hefur hann í gegnum tíðina hjálpað stórum og smáum verkefnum að vaxa og blómstra og í mörgum tilfellum gleðja íbúa landshlutans. Er það trú mín að svo verði einnig í ár á næsta ári.

Talandi um að vaxa og blómstra þá kemst ég ekki hjá því að minnast á Ungmennaþing Norðurlands eystra sem haldið var á Raufarhöfn í þetta skiptið. En í síðustu viku komu saman ungmenni frá öllum sveitarfélögum landshlutans og ræddu saman um sameiginleg hagsmunamál sín, en í ár var áherslan á menningu og skapandi greinar. Ef marka má þann drífandi hóp sem þarna kom saman er óhætt að segja að framtíð Norðurlands eystra er björt.

Í lok mánaðarins stóð Norðanáttin, samstarfsverkefni SSNE, SSNV, EIMS og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir lokaviðburði Startup Storms í Flugsafni Íslands á Akureyri. Lokaviðburðurinn þótti sérstaklega vel heppnaður og fjölmörg frumkvöðlaverkefni saman komin þarna sem öll tengdust á einhvern hátt umhverfis- og loftslagsmálum. Það var samdóma álit þeirra sem sóttu viðburðinn að erfitt væri að velja eitt verkefni þar sem þau væru öll spennandi, hvert á sinn hátt. Verkefnin, sem öll komu frá Norðurlandi (eystra og vestra), sýndu það vel í kynningum sínum hversu dýrmætt það getur verið að hafa aðgengi að hraðli eins og Startup Stormi og vonumst við til þess að við fáum tækifæri til að sjá a.m.k. sum þeirra blómstra á Fjárfestahátíðinni á Siglufirði 20. mars næstkomandi.

Nú þegar desembermánuður er mættur í öllu sínu veldi er ekki laust við gleði yfir því að desember virðist ætla að koma með snjóinn með sér. Við eigum það líklega öll til að gleyma okkur svolítið í jólaundirbúningnum og já, jólastressinu, en þá mæli ég með að fara heldur út og njóta útiveru og stoppa um stund og gleðjast yfir jólaljósunum.

Við hjá SSNE óskum ykkur gleðilegrar aðventu og vonumst til að sjá ykkur sem flest á rafrænu úthlutunarhátíðinni 13. desember næstkomandi.

Getum við bætt síðuna?