Fara í efni

Norðanátt opnar fyrir umsóknir í Vaxtarrými

Norðanátt opnar fyrir umsóknir í Vaxtarrými

Opið er fyrir skráningar í viðskiptahraðalinn Vaxtarrými. Um er að ræða átta vikna viðskiptahraðall með áherslu á sjálfbærni með mat, vatn og orku að leiðarljósi þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið. Verkefnið er sérhannað með þarfir þátttökufyrirtækjanna í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Teymin hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Norðurlandi og víðar á ráðgjafafundum, sitja vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli.

Vaxtarrými hefst 4. október og lýkur 26. nóvember og fer fram á netinu. Jafnframt hittast teymin fjórum sinnum meðan á verkefninu stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi. Leitast er eftir þátttakendum, þ.e. frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Norðurlandi sem eru komin af hugmyndastigi og vilja nýta Vaxtarrými Norðanáttarinnar til að vaxa.

Smellið hér til að opna umsóknarformið. Umsóknarfrestur er til og með 20. september.


Samstarfsverkefnið Norðanátt er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Að verkefninu Norðanátt koma Eimur, SSNV, SSNE, Nýsköpun í norðri og RATA. Hópurinn vinnur í anda nýrrar klasastefnu, þvert á stofnanir samfélagsins og hraðar framþróun og nýsköpun.

 

 

 

Getum við bætt síðuna?