Mikil þátttaka í Frumkvæðissjóðnum Brothættra byggða II
Mikil þátttaka í Frumkvæðissjóðnum Brothættra byggða II
Umsóknarfrestur fyrir Frumkvæðissjóð Brothættra byggða II vegna verkefnanna "Raufarhöfn og framtíðin" og "Öxarfjörður í sókn" rann út 5. maí sl.
Alls bárust 18 umsóknir, þar af 10 vegna verkefnisins á Raufarhöfn og 8 vegna verkefnisins í Öxarfirði.
Heildarupphæð umsókna hljóðaði upp á ríflega 40,5 milljónir króna, en til úthlutunar eru um 24,7 milljónir króna.
Fjöldi umsókna og fjölbreytni þeirra endurspeglar mikinn áhuga einstaklinga og fyrirtækja á að styðja við atvinnulíf og samfélagsþróun á svæðinu. Frumkvæðissjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að uppbyggingu og vexti í heimabyggð. Þátttakan í verkefninu sýnir vilja og áhuga íbúa til að móta blómlegt atvinnulíf og samfélag. Með styrkjunum er einnig verið að ýta undir nýsköpun og með því búa til ný tækifæri fyrir svæðið í heild.
Úthlutunarnefnd mun nú fara yfir umsóknir og leggja mat á þau verkefni sem bárust. Gert er ráð fyrir að úthlutun fari formlega fram á Sólstöðuhátíðinni á Kópaskeri 21. júní nk., þar sem styrkþegar og verkefni þeirra verða kynnt.