Mánaðarpistill framkvæmdastjóra - ágúst
Mánaðarpistill framkvæmdastjóra - ágúst
Íbúar og gestir Norðurlands eystra geta sannarlega verið sátt við sumarið sem nú er að líða. Veðurguðirnir léku við hvern sinn fingur og hafa eflaust mörg þurft að beita sig hörðu til að fara úr blíðunni og inn á skrifstofuna eftir gott sumarfrí.
Við hjá SSNE höfum farið hratt af stað og fjölmörg verkefni nú farin á fullt eftir sumarið. Þar má meðal annars nefna að í sumar samþykktu sveitarfélögin á Norðurlandi eystra að fara í gerð sameiginlegrar loftslagsstefnu fyrir landshlutann. Þá er starfsfólk okkar nú á fullu að undirbúa ýmsa viðburði, sem SSNE kemur að, fyrir frumkvöðla, fjárfesta og atvinnulíf, svo sem Norðanstorm og HönnunarÞing. Þá styttist í að opnað verði fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Sóknaráætlunar Norðurlands eystra þann 17. september næstkomandi, en umsóknarfrestur er til 22. október kl. 12:00.
Fyrr í mánuðinum stóð innviðaráðherra, Eyjólfur Ármannsson, fyrir fundi um innviðauppbyggingu. Þar var Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður stjórnar SSNE með innlegg fyrir hönd landshlutans.
Það gleymist stundum í umræðunni en Norðurland eystra er eitt helsta vaxtarsvæði Íslands. Hér er fjölbreytt samfélag um 32 þúsund íbúa, sem hafa bæði þekkingu og kraft til að byggja upp atvinnulíf framtíðarinnar. Við höfum menntað vinnuafl, öflug fyrirtæki, ríka menningararfleifð og einstaka náttúru sem bæði laðar að ferðamenn allan ársins hring og styður ríkulega við matvælaöryggi Íslendinga.
En það sem ræður úrslitum er annað: Innviðirnir. Þeir eru lífæð samfélagsins og lykillinn að því að hægt sé að nýta öll þau tækifæri sem svæðið býður upp á.
Við höfum séð á undanförnum árum hvernig stuðningur við sóknaráætlanir, byggðaáætlanir og einstök verkefni hefur skilað árangri. Þannig hafa sprottið upp ný fyrirtæki, ný tækifæri og sterkari samfélög. En fjárveitingar til þessara verkefna hafa of oft verið í skötulíki – skornar niður á einum stað til að bjarga á öðrum. Það er ekki boðlegt til lengri tíma.
Norðurland eystra er tilbúið til sóknar. Við erum tilbúin að taka á móti fjárfestingum, til að byggja upp atvinnulíf sem stenst alþjóðlega samkeppni. Við viljum efla innviði, frá vegum og flugi til hafna, fjarskipta og raforku. Og við viljum þróa hina borgina okkar, Akureyri, sem raunverulegan valkost við Reykjavík fyrir þau sem vilja búa í borgarsamfélagi.
Það er okkur sönn ánægja að fagna því að nýtt gagnaver rís á Bakka við Húsavík. Slík fjárfesting er mikill hvalreki fyrir svæðið allt, bæði hvað varðar atvinnusköpun og nýtingu á grænni orku. Hún sýnir svart á hvítu að Norðurland eystra er heppilegur staður fyrir alþjóðlega fjárfesta sem vilja byggja upp sjálfbæra starfsemi. Þetta er ekki bara stórt fyrir íbúa Norðurþings – þetta er stórt fyrir allt Norðurland eystra.
Ef Ísland ætlar sér að vera land jafnvægis, þar sem fólk geti byggt upp lífsgæði um allt land, þá þarf pólitískan kjark. Nú er rétti tíminn til að sýna þann kjark. Norðurland eystra bíður ekki, við erum þegar komin af stað.