Fara í efni

Lokaíbúafundur í Glæðum Grímsey

Lokaíbúafundur í Glæðum Grímsey

Lokaíbúafundur var haldinn í byggðaþróunarverkefninu Glæðum Grímsey þann 14. febrúar sl. Þar með var komið að þeim tímamótum að Byggðastofnun dró sig formlega í hlé úr verkefninu. Undirbúningur verkefnisins hófst á árinu 2015 og íbúaþing var haldið í apríl 2016. Verkefnið hefur hefur verið framlengt tvisvar sinnum. Það má með sanni segja að Grímseyingar hafi tekið höndum saman á verkefnistímanum og unnið að mörgum framfaramálum í eynni. Í upphafi verkefnis, á íbúaþingi, var sett fram verkefnisáætlun ásamt framtíðarsýn sem hefur verið leiðarljósið á framkvæmdatímanum. Mörg frumkvæðisverkefni hafa verið styrkt á tímabilinu úr Frumkvæðissjóði Glæðum Grímsey. Samtals var um 55 milljónum veitt til 48 verkefna. Auk þeirra verkefna hafa verkefnisstjórar aðstoðað eyjarskeggja við að sækja um styrki til ýmissa uppbyggingarverkefna í aðra sjóði.

Þrír verkefnisstjórar hjá SSNE hafa haldið utan um verkefnið á tímabilinu, þær Helga Íris Ingólfsdóttir, Karen Nótt Halldórsdóttir og nú síðast, undanfarið eitt og hálft ár, Arna Björg Bjarnadóttir. Þeim eru öllum þökkuð góð störf í þágu samfélagsins í Grímsey.

Halla Björk Reynisdóttir, formaður verkefnisstjórnar Glæðum Grímsey, setti íbúafundinn og lagði til að Kristján Þ. Halldórsson, fulltrúi Byggðastofnunar, yrði fundarstjóri, sú tillaga var samþykkt með lófaklappi. Helga Harðardóttir, fulltrúi Brothættra byggða hjá Byggðastofnun, fór yfir verkefni Brothættra byggða á landsvísu, sagði frá framvindu verkefnisins í heild og speglaði verkefnið Glæðum Grímsey í þeirri umfjöllun. Sigríður Elín Þórðardóttir, forstöðumaður þróunarsviðs hjá Byggðastofnun, þakkaði Grímseyingum fyrir virka og kraftmikla þátttöku í verkefninu og verkefnisstjórum og verkefnisstjórn fyrir þeirra þátttöku. Hún hvatti Grímseyinga til áframhaldandi samstöðu og virkni í að efla byggð og samfélag og lét þess getið að starfsfólk Byggðastofnunar myndi halda áfram að liðsinna þeim eftir bestu getu.

Þvínæst fór Arna Björg Bjarnadóttir yfir framvindu verkefnisins og hvað áunnist hefur til þessa. Lokaskýrsla um verkefnið er í smíðum og verður aðgengileg á heimasíðu Byggðastofnunar innan skamms. Halla Ingólfsdóttir, íbúi í Grímsey og styrkþegi, greindi frá því hvað stuðningur úr Frumkvæðissjóði Glæðum Grímsey hefur þýtt fyrir ferðaþjónustuna í Grímsey. Að erindi loknu bauð Akureyrarbær upp á glæsilegar veitingar sem Kvenfélagið Baugur reiddi fram. Fram kom á fundinum að þær María Helena Tryggvadóttir hjá Akureyrarbæ og Anna Lind Björnsdóttir hjá SSNE myndu í framhaldinu verða tengiliðir við Grímseyinga vegna málefna þeirra og aðstoða íbúa við að fylgja framfaraverkefnum eftir. Þær stigu því á stokk og sögðu frá hvernig þær gætu liðsinnt íbúum og hvöttu þá til virks samstarfs. Anna Lind hélt einnig kynningu á SSNE. Að því búnu var íbúum skipt í umræðuhópa þar sem fyrir lá að ná fram viðhorfum íbúa til verkefnisins í heild, hvað hefði gengið vel, hvað hefði mátt betur fara og ekki síst hvernig íbúar sjá sjálfir fyrir sér að fylgja uppbyggingu í Grímsey eftir. Skýrt kom fram í niðurstöðum umræðuhópanna að brýnustu mál eyjarskeggja eru aðgangur að sértæku aflamarki/byggðakvóta og að treysta innviðina, þar eru samgöngur og grunnatvinnuvegurinn brýnustu málefnin og jafnframt forsenda byggðar í eynni.

Í lok fundar þakkaði Halla Björk Reynisdóttir fundargestum fyrir góðan fund, íbúum fyrir virka þátttöku í verkefninu og verkefnisstjórum og verkefnisstjórn fyrir gott samstarf. Hún ítrekaði óskir um gott samstarf um málefni Grímseyjar hér eftir sem hingað til og hvatti íbúa til að nýta vel þann farveg sem tekur við eftir Byggðastofnun dregur sig í hlé úr verkefninu Glæðum Grímsey.

Þess má geta að veðrið í Grímsey þennan dag var framúrskarandi gott, logn og blíða, snjólétt í eynni og kjöraðstæður til ferðalaga fyrir þá sem heimsóttu eyna af þessu tilefni, bæði í flugi og í ferjusiglingu daginn eftir. Mótttökur Grímseyinga sem fyrr framúrskarandi góðar, allir boðnir og búnir til að leggja lið og hvarvetna tekið á móti hópnum með brosi á vör.

Samfélagið í Grímsey er sannarlega dýrmætt og ótrúlegt að upplifa kraftinn í fólkinu sem þar býr. Hver einstaklingur hefur gjarnan mörgum hlutverkum að sinna svo lífið í eynni gangi greiðlega fyrir sig og það mátti glöggt sjá þessa dagsparta sem verkefnisstjórnin dvaldi í eynni. Megi kraftur íbúanna í Grímsey verða okkur hinum fyrirmynd!

Hér má sjá myndir frá íbúafundinum og ferð verkefnisstjórnar til Grímseyjar.

Getum við bætt síðuna?