Vinna við mótun Loftslagsstefnu Norðurlands eystra farin af stað
Vinna við mótun Loftslagsstefnu Norðurlands eystra farin af stað
Vinna við mótun Loftslagsstefnu fyrir Norðurlands eystra er farin vel af stað.
Í byrjun sumar óskaði SSNE eftir því að sveitarfélögin skipuðu hvert sinn fulltrúa í samstarfshóp sem hefur það hlutverk að stýra vinnunni ásamt því að móta markmið og aðgerðir.
Öll sveitarfélögin höfðu lokið við að skipa í hópinn nú í september og hóf hann störf síðastliðinn fimmtudag, 18.september. Verkefnið er hluti af gildandi Sóknaráætlun Norðurlands eystra og stefnt er að því að hún verði samþykkt á vorþingi SSNE í mars. Hún er hluti af því að skipa landshlutann fremst í flokki umhverfismála á landinu og því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda innan landshlutann. Stefnan er unnin í samstarfi við Eim og er hluti af RECET verkefninu sem fjallar um orkuskipti í dreifðum byggðum.
Lagt verður upp með að stefnan muni innihalda fáar og raunhæfar aðgerðir. Að hún taki gildi árið 2026 og aðgerðir verði uppfærðar með reglulegum hætti á 2 ára fresti. Þannig skapist samfella aðgerða yfir lengra tímabil. Stefnt er að því að móta tvennskonar aðgerðir. Annars vegar þverlægar og sameiginlegar aðgerðir sem verða leiddar SSNE og tengjast þvert á sveitarfélögin. Hins vegar einstakar aðgerðir sem tengjast beint rekstri og framkvæmdum hvers og eins sveitarfélags. Unnið verður með fjóra málaflokka, orkuskipti, landnýtingu, úrgangsmál og aðlögun að loftslagsbreytingum. Þau gögn sem vinnan hvílir á eru skýrsla Eims um Olíunotkun sveitarfélaganna á Íslandi 2010-2020 og skýrsla Environice um Kolefnisfótspor Norðurlands eystra 2022. Niðurstöður þeirra skýrslu eru að sveitarstjórnir geti náð mestum og skjótustum árangri með endurheimt votlendis, endalokum urðunar og loftslagsvænni samgöngum.
Samhliða stefnumótunarvinnunni mun SSNE rýna tækifæri og kostnað við að sveitarfélögin á Norðurlandi eystra innleiði rafrænt losunarbókhald. Markmið slíkra kerfa er að sjálfvirknivæða gagnasöfnun sem auðveldar til muna markmiðasetningu við framfylgd aðgerða í loftslagsmálum.
Gert er ráð fyrir að þessi vinna, markmiðasetning og mótun aðgerða geti nýst sveitarfélögunum beint í sinni vinnu við mótun eigin loftslagsstefnu eða við endurskoðun á gildandi loftslagsstefnu.