Fara í efni

Íbúafundur með innviðaráðherra á Akureyri

Íbúafundur með innviðaráðherra á Akureyri

Íbúafundur með Eyjólfi Ármannssyni innviðaráðherra fór fram á Akureyri 12. ágúst í Múlabergi. Fundurinn var hluti af landsferð ráðherrans þar sem hann hittir íbúa og sveitarstjórnarfólk til að ræða málefni ráðuneytisins, meðal annars samgöngur, byggðamál, fjarskipti og stafræna innviði.

Í ávarpinu lagði Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður stjórnar SSNE áherslu á mikilvægi öflugra innviða fyrir framtíðaruppbyggingu á Norðurlandi eystra og hvatti innviðaráðherra til aukins stuðnings við landshlutasamtökin og sóknaráætlanir svæðisins. Meginþunginn var þó á samgöngu-, flug- og hafnamál, þar sem kallað var eftir fjárfestingu í öruggum og greiðum vegasamgöngum, áreiðanlegu flugi til Akureyrar og Húsavíkur, og uppbyggingu hafnarmannvirkja. Þá var bent á mikilvægi traustra fjarskipta, raforkuöryggis og byggðaáætlunar sem stuðlar að jafnvægi og fjölbreyttu atvinnulífi. Í lokin var lögð áhersla á að Akureyri verði styrkt sem önnur borg landsins, en jafnframt að nærliggjandi samfélög blómstri, enda séu tækifærin fjölmörg ef stjórnvöld sýni pólitískan vilja og fjárfesti í innviðum sem nýtast landinu öllu.

Á fundinum gafst gestum færi á að koma á framfæri hugmyndum og ábendingum sem verða nýttar við stefnumótun ráðuneytisins. Fundurinn var vel sóttur og einkenndist af opnum umræðum.

Í framhaldi af yfirferð ráðherra um landið verður haldið innviðaþing á fimmtudaginn 28. ágúst á Hótel Nordica í Reykjavík. Þingið er ætlað öllum áhugasömum og þar verður fjallað um lykilþætti innviðaþróunar á landsvísu.

Getum við bætt síðuna?