Fara í efni

Hvers vegna Græn skref?

Hvers vegna Græn skref?

Æ meiri áhersla er lögð á umhverfis- og loftslagsmál innan SSNE, en meðal markmiða Sóknaráætlunar er að efla staðbundna þekkingu á umhverfis- og loftslagsmálum og að landshlutinn leggi sitt af mörkum til að ná markmiðum stjórnvalda um samdrátt í losun. Umhverfis- og loftslagsmál eru risastór og flókinn málaflokkur og kröfurnar aukast sífellt. Þegar verkefnin eru stór og viðamikil vill það gerast að fólki fallist hendur frammi fyrir þeim; Hvar á að byrja? Hefur það sem við gerum eitthvað að segja? Til hvers er ætlast af okkur?

Grænu skrefin eru kerfi sem aðstoða við innleiðingu aðgerða sem stuðla að samdrætti í losun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi vinnustaða. Komin er góð reynsla á Græn skref í ríkisrekstri, en stofnunum ríkisins hefur staðið til boða að innleiða skrefin frá 2014 og frá og með 2019 varð verkefnið að skyldu fyrir alla ríkisaðila. SSNE eru fyrstu landshlutasamtökin sem bjóða sveitarfélögum sínum upp á aðstoð við að innleiða Grænu skrefin í skrifstofustarfsemi sína.

Með Grænum skrefum eru verkefni sem geta virst óyfirstíganleg í fyrstu bútuð niður í viðráðanlegar aðgerðir og smám saman byggist upp sterkt umhverfisstarf og umhverfisstjórnunarkerfi innan vinnustaðanna. Græn skref SSNE eru aðlöguð að starfsemi sveitarfélaga á minni stöðum og í dreifðari byggðum, auk þess sem þau taka mið af staðbundnum áherslum í Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Mikil áhersla er lögð á að aðstoða sveitarfélögin við að uppfylla lögbundnar skyldur í loftslagsmálum, en þær snúa helst að gerð loftslagsstefnu og aðgerðaráætlunar auk þess sem starfsfólk SSNE mun styðja við sveitarfélögin í utanumhaldi á grænu bókhaldi.

Okkur sem störfum hjá SSNE þykir óþarfi að hvert sveitarfélag þurfi að finna upp hjólið þegar kemur að því að innleiða umhverfis- og loftslagsstarf í starfsemi sína. Með því að stíga skrefin saman deilum við kröftum okkar, aukum hagkvæmni og byggjum um leið upp þekkingu innan hvers sveitarfélags.

Viltu vita meira um Græn skref og umhverfismál, smelltu þá hér

Getum við bætt síðuna?