Fara í efni

Hvað ef við fylltum Akureyrarlaug tvisvar í viku af olíu og kveiktum í henni?

Hvað ef við fylltum Akureyrarlaug tvisvar í viku af olíu og kveiktum í henni?

Þann 21. febrúar héldu Eimur, SSNE og Íslensk Nýorka málstofu í Hofi og í streymi. Efni málþingsins var staða mála í orkuskiptum á Norðurlandi, olíunotkun svæðisins ásamt sérstakri umfjöllun um orkuskipti í þungaflutningum og við hafnir. Málstofan var afar vel sótt af yfir 160 góðum gestum og erindin gott upphaf að þeirri vinnu sem er nú hafin með RECET á Norðurlandi eystra.

Birgir Ásgeirsson frá Umhverfisstofnun fór yfir losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og minnti á að verkefnið framundan væri ærið og krefðist þess að við brettum öll upp ermar. Magnús Örn frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu fór yfir ferlið á bakvið nýja aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem verður gerð opinber í marsmánuði. Sigurður Friðleifsson frá Orkustofnun fór yfir langlífar mýtur um rafmagnsbíla og skerpti á því að hagkvæmustu orkuskiptin væru að minnka notkun einkabílsins. Hann fór einnig yfir stöðuna á hraðhleðslutengingum um allt land og hvar helstu áskoranirnar væru í því að tengja allan hringveginn við hraðhleðslustöðvar. Skúli Gunnar frá Eimi fór yfir nákvæmar tölur um alla olíunotkun á Norðurlandi eystra, og í hvað olían færi í mismunandi sveitarfélögum. Anna Margrét frá Íslenskri Nýorku fjallaði sérstaklega um þá rafmagnsvörubíla sem væru komnir í almenna sölu og fór yfir fyrstu kaup Íslands á þeim. Í hennar umfjöllun kom skýrt í ljós, að skortur er á hleðslustöðvum fyrir þungaflutninga og hún kallaði eftir auknum stuðningi opinbera aðila við að byggja þær upp. Að lokum fór Þorsteinn Másson frá Bláma á Vestfjörðum yfir þær fjölbreyttu lausnir sem hafnir landsins eru þegar farnar að nýta sér og teiknaði upp skýra mynd af þeim umfangsmiklu breytingum sem orkuskiptin munu hafa á skipulag og rekstur hafna á Íslandi.

Mikill hugur var í fundargestum og miðað við þá einstaklega góðu þátttöku sem var á málþinginu er ljóst að orkuskiptin eru fólki ofarlega í huga. Það verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum í orkuskiptum á Norðurlandi.

--> Á næstu dögum verða birtar upptökur af hverju erindi fyrir sig, en þangað til er vert að vekja athygli á frétt og viðtali RÚV frá málþinginu „Eins og við fylltum Akureyrarlaug af olíu tvisvar í viku“ - RÚV.is (ruv.is)

11:00-11:15 SSNE – Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
Ávarp/Opnun málstofu

11:20-11:40 Umhverfisstofnun – Birgir U. Ásgeirsson
Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi
 
11:45-12:05 Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið – Magnús Örn Agnesar Sigurðsson
Uppfærsla aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum

12:10-12:30 Orkustofnun – Sigurður Friðleifsson
Staða og áskoranir í Orkuskiptum – Ísland og Norðurland Eystra

13:10-13:30 Eimur – Skúli Gunnar Árnason
Olíunotkun á Norðurlandi Eystra: Í hvað fer olían?

13:35-13:55 Íslensk Nýorka – Anna Margrét Kornelíusardóttir
Orkuskipti í þungaflutningum

14:00-14:20 Blámi – Þorsteinn Másson
Orkuskipti við hafnir

14:25-14:30 Eimur – Ottó Elíasson
Samantekt og málstofu lokið

Heildarupptaka: https://www.youtube.com/watch?v=iqWMucqNJ38
Getum við bætt síðuna?