Fara í efni

Hefur þú skoðun á byggðaáætlun?

Hefur þú skoðun á byggðaáætlun?

Nú er komið að endurskoðun byggðaáætlunar og almenningi gefst þar með tækifæri til að segja sína skoðun og koma tillögum á framfæri. Opnað hefur verið fyrir rafrænt samráð á vef Byggðastofnunar, ýtið hér til að opna skjalið. 

Hvað er byggðaáætlun? 

Byggðaáætlun er lýsing á stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðalaga um land allt. Sérstök áhersla skal lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. 

Hver er gildistími núgildandi byggðaáætlunar?

Núgildandi byggðaáætlun var samþykkt af Alþingi í júní 2022 með öllum greiddum atkvæðum og gildir til ársins 2036. 

Hvað með aðgerðaáætlunina?

Aðgerðaáætlun núgildandi byggðaáætlunar nær til ársloka 2026, en vinna við endurskoðun byggðaáætlunar hófst með samráðsfundum innviðaráðherra um land allt í ágúst 2025. Áætlað er að vinnu við endurskoðun ljúki með tillögu til þingsályktunar sem lögð verður fyrir Alþingi haustið 2026. 

Hver eru meginmarkmið byggðaáætlunar?

  • Að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu.
  • Að jafna lífskjör.
  • Að stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. 

Dæmi um aðgerðir í núgildandi byggðaáætlun:

  • Jöfnun orkukostnaðar (A2)
  • Verslun í dreifbýli (A.9)
  • Orkuskipti og betri orkunýting (B.2)
  • Staðarval ríkisstarfa (B.6)
  • Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða (C.1)
  • Sjálfbær samfélög - efling hringrásarhagkerfisins (C.8)

Hér má sjá skýrslu innviðaráðherra um framvindu stefnumótandi byggðaáætlunar og stöðu aðgerða. 

Byggðaáætlun og aðgerðir hennar skipta landshlutann og íbúa hans miklu máli, við hvetjum öll áhugasöm til að kynna sér hana og setja inn tillögur og athugasemdir. 

Getum við bætt síðuna?