Fara í efni

Haustþing SSNE 2025 haldið í vikunni

Dalvík
Dalvík

Haustþing SSNE 2025 haldið í vikunni

Haustþing Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) var haldið rafrænt miðvikudaginn 29. október 2025. Þingið var fjölmennt, en full mæting var hjá þingfulltrúum sveitarfélaganna, en að auki mætti fjöldi gesta frá samstarfsaðilum og stofnunum.

Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður stjórnar SSNE, setti þingið og flutti skýrslu stjórnar um framvindu starfsáætlunar 2025 og starfsáætlun SSNE fyrir árið 2026. Hún undirstrikaði í ávarpi sínu mikilvægi samstöðu sveitarfélaga og áframhaldandi sóknar í atvinnu-, nýsköpunar- og byggðamálum á Norðurlandi eystra.

Dagskrá þingsins var samkvæmt samþykktum SSNE, og var meðal annars fjallað um og samþykkt ályktun þingsins sem nálgast má hér.

Góðir gestir frá samstarfsaðilum SSNE mættu einnig til fundarins og sögðu frá starfsemi sinni. Þannig kynnti Ottó Elíasson framkvæmdastjóri Eims ýmis verkefni félagsins á sviði orku- og hringrásarhagkerfis, Halldór Óli Kjartansson starfandi framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands ræddi m.a. þróun ferðaþjónustu á svæðinu og mikilvægi þess að áfram verði stutt við millilandaflug á Akureyrarflugvelli og Leifur Þorkelsson frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra fjallaði um yfirfærslu verkefna heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna til ríkisstofnana.

Þá var flutt ávarp Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og þá kynnti Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga það helsta úr starfsemi Sambandsins.

Í lok þingsins mættu Ester Anna Ármannsdóttir sviðsstjóri hjá Skipulagssstofnun og Aðalsteinn Óskarsson sviðsstjóri hjá Vestfjarðastofu og kynntu annars vegar komandi vinnu við strandsvæðaskipulag fyrir Eyjafjörð og Skjálfandaflóa og hins vegar reynslu Vestfirðinga af strandsvæðaskipulagsvinnu þar og hverju hún hefur skilað, en vonast er til að vinna við strandsvæðaskipulag fyrir Eyjafjörð og Skjálfandaflóa fari af stað fljótlega.

Þess má geta að áætlað er að halda ársþing SSNE 2026 á Dalvík þann 26. mars. 

Getum við bætt síðuna?