Hátt í 300 manns sóttu ráðstefnu um framtíð Bakka
Hátt í 300 manns sóttu ráðstefnu um framtíð Bakka
Ráðstefnan „Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri“ var haldin á Fosshótel Húsavík 20. nóvember með um 250 gestum. Markmið hennar var að kynna þá vinnu sem hefur verið unnin varðandi hringrásargarð og atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík.
Á ráðstefnunni sem var opin öllum komu saman fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga, íbúa og fyrirtækja. Í erindum og umræðum var vinnan við mótun hringrásargarðs á Bakka kynnt sérstaklega og í því samhengi rætt um sjálfbæra nýtingu orku, styrkingu innviða og fjölbreytt atvinnutækifæri á svæðinu, t.d. í landeldi, gagnaverum og iðnaðarframleiðslu.
Forsætisráðherra og atvinnuvegaráðherra lýstu yfir skýrum stuðningi stjórnvalda við uppbyggingu á Bakka og kynntu aðgerðir eins og eflingu raforkukerfis og einfaldari leyfisferla. Landsnet og Landsvirkjun kynntu m.a. áform um aukið afhendingaröryggi og frekari nýtingu jarðvarma.
Í pallborðsumræðum kom fram bjartsýni um framtíðina á Bakka þrátt fyrir áskoranir vegna rekstrarstöðvunar PCC BakkiSilicon. Samstaða, öflugir innviðir, mannauður og markviss kynning á svæðinu voru talin lykilþættir í að laða að ný verkefni og fjárfestingu.
Ráðstefnan endaði á jákvæðum nótum um að samfélagið á Húsavík sé í sókn og tilbúið að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu.
Lesa má nánar um fundinn á síðu Eims