Fara í efni

Gullakistan

Ert þú að fjalla um tilraunir, líf án rafmagns, himinhvolfið eða stærð nasaholu á steypireið? Er skó…
Ert þú að fjalla um tilraunir, líf án rafmagns, himinhvolfið eða stærð nasaholu á steypireið? Er skólinn að huga að vettvangsferð? Þá er tilvalið að hafa samband við fulltrúa safna, setra og sýninga og kanna fræðsluleiðir og notkunarmöguleikana sem eru afar fjölbreyttir, allt frá leiðsögn, leikjum, útiveru, kennslustofu og til leikhúsumgjörðar.

Gullakistan

Á menningarsvæði heimasíðu SSNE hefur ein af afurðum áhersluverkefnisins Gullakistan fengið tímabundið pláss. Gullakistan er opin öllum en uppsetningin er sérstaklega miðuð að starfsfólki í leik- og grunnskólum samkvæmt markmiðum verkefnis.

Verkefnið varð til útfrá þeirri eftirspurn að brúa bil milli safna, setra og sýninga og skólastiga. Markmið Gullakistunnar er að aðstoða kennara og leiðbeinendur við að fletta upp, bóka og fá innblástur af þeirri fræðslu sem söfn, setur og sýningar á Norðurlandi eystra hafa uppá að bjóða nemendum á leik- og grunnskólastigi. Allt í takt við námsefni, skólastig og námskrá -- útfrá leitarorðum sem starfsfólk skólastiganna lagði til. Það mætti segja að Gullakistan sé nokkurs konar fjársjóðskort sem vísi leiðina að stórum sem smáum gullmolum um allan landshlutann.

Safnaflóra svæðisins er afar fjölbreytt en um 40 söfn, setur og sýningar eru hluti af verkefninu. Mikilvægt er að sveitarfélög og ríki styðji við uppbyggingu, skipulag og þróun safnamála á svæðinu í takt við stefnu og aðgerðir mennta-, menningar- og atvinnumála. Jafnframt er mikilvægt að njóta og nýta þennan kost sem landshlutinn færir okkur á silfurfati – og þar kemur verkfærið Gullakistan til sögunnar.

Gagnasöfnun í leik- og grunnskólum:
Allir skólastjórar á leik- og grunnskólastigi fengu kynningarbréf og bauðst jafnframt kynningarfundur. Í  framhaldinu fengu allir skólastjórar hlekk á könnun en tilgangur könnunarinnar var að finna út hvaða leitarorð myndu henta skólastarfsfólki til að finna safnfræðslu og vettvang við hæfi. Svolítið eins og að búa til fjársjóðskort fyrir kennara, þannig að þeir verði fljótir að opna viðeigandi fjársjóðskistur og nýta þann auð sem við eigum í landshlutanum. 

Gagnasöfnun hjá söfnum, setrum og sýningum:
Bæði almennum upplýsingum sem og útfrá niðurstöðum könnunar til skólastarfsfólks var safnað. Ljóst er að ríkulegur fjöldi af fjölbreyttum, vönduðum og lifandi fræðsluverkefnum er til staðar, en ekki jafn sýnileg og vert væri. Nauðsynlegt er að draga þau fram í dagsljósið. Aðeins 8 af 40 miðla fræðslumöguleikum sínum fyrir leik- og grunnskóla á heimasíðum sínum þegar þetta er skrifað. Fimm eru með skriflega fræðslustefnu og færri búa yfir stöðu safnkennara. Með stuðningi þessa verkefnis er vonast til að gera barnamenningarstarf aðgengilegra og veita því viðeigandi stall.

Verkefnið er unnið af menningarfulltrúa SSNE og Þórgunni Þórsdóttur verkefnastjóra. Í gegnum ýmis störf SSNE er sýnileika og mikilvægi menningar og lista haldið á lofti og Gullakistan nú bæst í verkfærakistuna til þess að ná til yngstu kynslóðanna sem og að stuðla að auknum samstarfsflötum fagfólks safna, setra og sýninga.

Þórgunnur hefur bæði menntun og víðtæka reynslu, sem og mikinn áhuga á því hvernig miðla megi íslenska menningararfinum, sem veitir Gullakistunni forskot. Þórgunnur er menntuð í myndlist, hefur m.a. gegnt hlutverki fræðslufulltrúa safna, sérfræðings safna, safnstjóra, viðburðarstjóra og unnið ýmis konar kvikmynda-, heimasíðu- og ljósmyndaverkefni sem gefur mikilvæga innsýn í ólíkar þarfir nemenda. Þórgunnur er jafnframt með BA gráðu í samtímalist og sýningarstjórn.

Getum við bætt síðuna?