Fyrsti fundur Farsældarráðs Norðurlands eystra haldinn – Markviss og samstillt vegferð að farsæld barna hafin
Fyrsti fundur Farsældarráðs Norðurlands eystra haldinn – Markviss og samstillt vegferð að farsæld barna hafin
Fyrsti fundur nýstofnaðs Farsældarráðs Norðurlands eystra var haldinn 3. desember 2025 með þátttöku fjölbreytts hóps fagfólks frá sveitarfélögum, þjónustuveitendum ríkisins á svæðinu og fulltrúum foreldraráða. Fundurinn fór fram í fjarfundi. Á næstu fundum munu einnig bætast við fulltrúar ungmennaráða á Norðurlandi eystra. Ráðið er stofnað í samræmi við 5. gr. laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, og markar mikilvægt skref í átt að heildstæðri og samræmdri þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra á Norðurlandi eystra.
„Það var ánægjulegt að sjá hve öflug samstaða ríkti meðal fundarmanna um mikilvægi samvinnu í þágu farsældar barna,“ segir Þorleifur Kr. Níelsson, verkefnastjóri farsældarráðs. „Við leggjum áherslu á opið, gagnsætt og markvisst samstarf þar sem rödd barna og foreldra skipar mikilvægan sess.“
Á fundinum var farið yfir hlutverk og tilgang ráðsins, þar á meðal hvernig ráðinu verði falið að móta fjögurra ára svæðisbundna aðgerðaáætlun um forgangsröðun aðgerða, í samræmi við stefnu stjórnvalda og niðurstöður farsældarþings. Einnig fóru fram kynningar fundarmanna, sem komu úr ólíkum geirum m.a. velferðar- og skólaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, lögreglu, íþróttastarfi og foreldrasamstarfi.
Formaður og varaformaður ráðsins voru kjörnir á fundinum:
Karólína Gunnarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Akureyrarbæjar, var kjörin formaður.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Fjallabyggðar, var kjörin varaformaður.
Fram undan er vinna við mótun aðgerðaáætlunar ráðsins, þar sem sérstök áhersla verður lögð á að tryggja þátttöku barna og ungmenna, í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenska löggjöf. Farsældarráð Norðurlands eystra er samstarfsvettvangur tíu sveitarfélaga á svæðinu og helstu þjónustuveitenda ríkisins. Markmið þess er að styðja við stefnumótun og samhæfingu þjónustu sem miðar að velferð og farsæld barna og fjölskyldna þeirra.
Frekari upplýsingar veitir:
Þorleifur Kr. Níelsson
Verkefnastjóri Farsældarráðs Norðurlands eystra
📧 thorleifur@ssne.is