Fara í efni

Fyrirmyndaraðstaða fyrir fólk og frumkvöðla hjá AkureyrarAkademíunni

Á mynd eru f.v. Kolfinna María Níelsdóttir hjá SSNE, Aðalheiður Steingrímsdóttir framkvæmdastjóri Ak…
Á mynd eru f.v. Kolfinna María Níelsdóttir hjá SSNE, Aðalheiður Steingrímsdóttir framkvæmdastjóri AkureyrarAkademíunnar og Elva Gunnlaugsdóttir hjá SSNE.

Fyrirmyndaraðstaða fyrir fólk og frumkvöðla hjá AkureyrarAkademíunni

Í síðustu viku heimsótti starfsfólk SSNE á Akureyri AkureyrarAkademíuna í Sunnuhlíð 12 og fengum við þar góða kynningu á starfsemi hennar.

 

Elva skrifar í gestabókina

AkureyrarAkademían er samfélag fólks sem stundar háskólanám og sinnir fræði- og ritstörfum. Þá stendur AkureyrarAkademían reglulega fyrir fundum, fyrirlestrum, málþingum og öðrum viðburðum. Fyrir skömmu fékk AkureyrarAkademían styrk hjá Menningarsjóði Akureyrar til að vera með fyrirlestra og sögugöngu fyrir bæjarbúa í tengslum við 160 ára afmæli Akureyrarbæjar á þessu ári. Þá fengu þau einnig styrk frá Norðurorku til að halda fræðandi, fjölbreytta og áhugaverða fyrirlestra fyrir íbúa hjúkrunarheimilanna á Akureyri sem verða líka opnir fyrir aðra bæjarbúa.

Góð vinnuaðstaða fyrir fræðamenn og frumkvöðla
Hjá AkureyrarAkademíunni stendur einstaklingum til boða að leigja sér vinnuaðstöðu og taka þátt í lifandi og þverfaglegu fræðasamfélagi. 12 vinnuaðstöður eru í húsnæðinu, þar af sex laus. Starfsaðstöðunni fylgja skrifstofuhúsgögn, nettenging, aðgangur að prentara og sameiginlegri aðstöðu eins og fundaherbergi og eldhúsaðstöðu.


Aðstaða fundarherbergis 

Á síðasta ári gerðu Akureyrarbær og AkureyrarAkademían samstarfssamning sín á milli til næstu þriggja ára. Markmið samningsins er að styðja við frumkvöðlastarf, og um leið starfsemi Akademíunnar, með því að bjóða einstaklingum sem vinna að nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefnum upp á vinnuaðstöðu í húsnæði hennar án endurgjalds. Þar geta einstaklingar unnið að þróun nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefna í samstarfi við Akureyrarbæ og er vinnuaðstaðan hugsuð sem styrkur til viðkomandi verkefna.

Tímabil sem auglýst er til úthlutunar eru sex mánuðir og eru tvær slíkar vinnuaðstöður lausar eins og staðan er í dag.

Ef þú hefur áhuga á að leigja þér vinnuaðstöðu í AkureyrarAkademíunni til lengri eða skemmri tíma hafðu þá samband við Aðalheiði Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóra AkureyrarAkademíunnar í síma 833 9861 eða sendu tölvupóst á netfangið adalheidur.steingrimsdottir@akak.is

Heimasíða AkureyrarAkademíunnar - www.akak.is

 

Getum við bætt síðuna?