Fara í efni

Frumdrög að nýrri kirkju í Grímsey

Frumdrög að nýrri kirkju í Grímsey

Á sóknarnefndar- og íbúafundi í Grímsey þann 16. nóvember síðastliðinn kynnti Hjörleifur Stefánsson arkitekt frumdrög að nýrri kirkju.
 
Þegar horft er til byggingarreglugerðar verður ekki betur séð en að nauðsynlegt verði að bæta töluverðu rými við það sem gamla kirkjan bjó yfir vegna nútímakrafna um margvíslegan búnað, svo sem tækjabúnað, ræstiklefa, snyrtingu, aðgengi fatlaðra o.fl. Einnig er horft til þess að sjálfsagt væri að gera nýja kirkju þannig úr garði að hún nýttist sem best einnig til annarra athafna en helgihalds.

 
Það sem einkenndi Miðgarðakirkju öðru fremur var forkirkjan og turninn með toppmynduðu þaki en efri hluti hans var undir þrengra formi og umhverfis stallinn sem myndaðist á skilunum var handrið af renndum pílárum og á hornstoðum þess fjórum voru litlir málmkrossar. Ný kirkja með svipuðum turni gæti orðið keimlík þeirri gömlu.

 Á íbúafundinum var kynnt hugmynd um að gera veggklæðingar nýrrar kirkju úr lerki/rekavið eins og gamla kirkjan. Þá er hugmyndin að gera gólf kirkjunnar úr stuðlabergi og leiðast við að tengja húsið náttúru eyjarinnar og sögu. Neðan við Miðgarða og víðar á vesturströnd eyjarinnar eru fallegir stuðlabergsklettar og þar má sjá lárétta stuðlastalla, sem minna helst á „kirkjugólfið“ við Kirkjubæjarklaustur. Gólf nýju kirkjunnar yrði lagt stuðlabergsflísum og við austurgaflinn yrði altari myndað af nokkrum bergstuðlum sem risu upp úr gólfinu.

 
Á húsþakinu yrðu einnig þakskífur sem gerðar yrðu úr sneiðum af bergstuðlum. Árið 1222 kom Guðmundur Arason biskup til Grímseyjar á flótta undan Sturlungum. Á meðan hann dvaldi í eynni vígði hann bjargið og því má ef til vill með sanni segja á gólf kirkjunnar, altari og þak verði úr vígðu bergi. Guðmundur góði vígði einnig brunn í landi Miðgarða sem nefnist Gvendarbrunnur, og að auki vígði hann lindina Brynhildi.
 
Fundurinn samþykkti einróma að Hjörleifur myndi halda áfram með verkefnið og að fullvinna teikningarnar. Jafnframt óskaði hann eftir að Arna Björg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri Glæðum Grímsey hefði yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins.
 
Nánari upplýsingar um forsendur frumteikninga má óska eftir hjá Örnu, arna@ssne.is

 

Getum við bætt síðuna?