Fara í efni

Framtíðarþróun flutningskerfisins á Norðausturlandi

Arngunnur og Guðrún Margrét heimsækja Ísfélagið á Þórshöfn.
Arngunnur og Guðrún Margrét heimsækja Ísfélagið á Þórshöfn.

Framtíðarþróun flutningskerfisins á Norðausturlandi

Sérfræðingar Landsnets, þær Arngunnur Einarsdóttir og Guðrún Margrét Jónsdóttir, sóttu Langanesbyggð heim á dögunum í tilefni þess að Landsnet hefur hafið vinnu við framtíðarþróun flutningskerfis raforku á Norðausturlandi. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að hitta fulltrúa sveitarfélagsins og stórnotendur á svæðinu til að kortleggja raforkuþörf til framtíðar.

Heimamenn hafa lengi kallað eftir bættri flutningsgetu, enda er öruggt framboð raforku forsenda þess að fyrirtæki á svæðinu séu áfram samkeppnishæf og að sveitarfélagið í heild sinni geti tekið þátt í orkuskiptum og byggt upp framtíðaratvinnuvegi.

Líkt og fram kemur í nýlegri skýrslu starfshóps um eflingu samfélagsins á Langanesi getur afhendingaröryggi rafmagns í landshlutanum ekki talist gott miðað við óbreytta stöðu. Flutningskerfi Landsnets endar við Kópasker og þaðan fær Þórshöfn orku um 33kV jarðstreng Rarik sem plægður var niður í lok síðustu aldar. Núverandi flutnings- og dreifikerfi hefur því afar takmarkaða flutningsgetu eða um 6 MW, sem er fullnýtt á tímum álagstoppa.

RARIK og Landsnet skoða nú fýsileika þess að breyta þessu, þannig að Landsnet taki við orkuflutningum til Brúarlands við Þórshöfn. Í framhaldinu væri hægt að tengja áfram frá Þórshöfn og til Vopnafjarðar. Þar með væri komin tvítenging á þessum landshluta og er það í takti við stefnu stjórnvalda, þ.e.a.s. að allir afhendingarstaðir í flutningskerfinu verði tvítengdir fyrir árið 2040.

Getum við bætt síðuna?