Fara í efni

Frábærlega vel heppnaður Fiðringur í Hofi

Grunnskóli Fjallabyggðar tekur við verðlaunagripnum.
Grunnskóli Fjallabyggðar tekur við verðlaunagripnum.

Frábærlega vel heppnaður Fiðringur í Hofi

Það var rífandi stemning í Hofi á úrslitakvöldi Fiðrings, á þriðjudagskvöldið 25. apríl þegar 8 grunnskólar á starfsvæði SSNE kepptu til úrslita og leyfðu hæfileikum sínum að skína. Nemendurnir sömdu atriðin sín sjálfir og með stuðningi leiðbeinenda sinna sáu þau sjálf um tæknina, búninga, förðun, textaskrif, útfærslu og dansinn. Miklar æfingar liggja að baki uppsetningunum og á úrslitakvöldinu voru ríflega 120 nemendur sem stóðu á sviðinu.

Ungmennin tóku á stórum málefnum í verkum sínum, meðal þess sem fjallað var um voru fordómar, sjálfsskaði, gerendameðvirkni, ofbeldi, álagið sem fylgir því að vera ung stelpa í dag, ofbeldi gegn konum í Íran og hamfarahlýnun. Nemendur komu boðskapnum til skila á skapandi hátt og eiga öll hrós skilið fyrir áhrifamikla sviðsframkomu.  Kynnar kvöldsins voru Vandræðaskáldin Vilhjálmur og Sesselía og poppstjarnan Gugusar flutti atriði meðan dómarar réðu ráðum sínum.

Grunnskóli Fjallabyggðar stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins, en atriðið þeirra kallast Seinna er of seint og fjallar um hvernig tíminn sem við höfum til að bjarga jörðinni er á þrotum. Atriðið endaði á hvatningu til að hefjast handa strax í dag, og að öll getum við gert eitthvað til að bæta framtíðarhorfur heimsins.

Verkefnið er að hluta til fjármagnað úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra. SSNE óskar grunnskóla Fjallabyggðar innilega til hamingju með sigurinn og öllum þátttakendum með frábæra frammistöðu.

Getum við bætt síðuna?