Fara í efni

Frá hugmynd að stórviðburði – Skálmöld í Heimskautsgerðinu sýnd á RÚV

Ljósmynd: Axel Þórhalsson
Ljósmynd: Axel Þórhalsson

Frá hugmynd að stórviðburði – Skálmöld í Heimskautsgerðinu sýnd á RÚV

Verkefni sem hljóta styrk úr Uppbyggingarsjóði SSNE geta vaxið og þróast í einstök menningar- og atvinnuverkefni sem hafa víðtæk áhrif á samfélagið. Tónleikaverkefnin ,,Undirbúningur fyrir heimskautstónleika" og  „Hávaði í Heimskautsgerðinu“ eru skýr dæmi um slíkt.

Laugardagskvöldið 6. september kl. 21:15 sýnir RÚV upptöku frá tónleikum hljómsveitarinnar  Skálmaldar sem og heimildarmynd sem tekin var í aðdraganda viðburðarins og veitir innsýn í undirbúninginn, stemninguna, samhug og kraftinn sem einkenndi þessa einstöku tónleika Skálmaldar sem haldnir voru í Heimskautsgerðinu við Raufarhöfn haustið 2024. Skálmöld, ein öflugasta þungarokkshljómsveit landsins, kom fram í einstöku umhverfi Heimskautsgerðisins þar sem náttúra, menning og tónlist sameinuðust á áhrifaríkan hátt. Veðrið lék við gesti og umgjörðin var til fyrirmyndar. Á annað þúsund gestir lögðu leið sína til Raufarhafnar og tóku þátt í þessum sögulega viðburði.

Verkefnið hlaut styrk úr Sóknaráætlun landshlutans. Styrkurinn var veittur til undirbúnings og skipulagningar tónleikanna, sem og til að þróa móttöku gesta í samvinnu við íbúa Raufarhafnar. Einnig hlaut verkefnið Hávaði við Heimskautsgerðið framleiðslustyrk til upptöku tónleikanna og heimildarmyndarinnar.

Að sögn verkefnisstjóra viðburðarins Nönnu Steinu Höskuldsdóttur og Axels Árnasonar, gerði þetta framlag verkefnið að veruleika og sýnir vel hvernig markviss stuðningur getur skapað tækifæri til nýsköpunar og samfélagslegrar uppbyggingar.

 
Næsti umsóknarfrestur í Uppbyggingarsjóð Sóknaráætlunar Norðurlands eystra verður 17. september - 22. október kl.12:00 og því tilvalið að huga að hugmyndum í pottinn. 

Getum við bætt síðuna?