Föstudagsfundir SSNE
Föstudagsfundir SSNE
Í vetur voru haldnir reglulegir föstudagsfundir hjá SSNE þar sem fjallað var um ólíka þætti ólíkra atvinnugreina innan landshlutans og stöðu þeirra. Meðal annars var fjallað um gervigreind í landbúnaði og fjárfestingar í ferðaþjónustu en hvoru tveggja voru mjög áhugaverð umfjöllunarefni.
Á síðasta föstudagsfundinum í vor var kastljósinu beint að framlagi menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar. Þar voru fjölbreytt erindi og sköpuðust áhugaverðar umræður, meðal annars um það hvernig framlag menningar og skapandi greina er oft vanmetið í opinberri umræðu og stefnumótun.
Ágúst Ólafur Ágústsson hagfræðingur hóf fundinn með yfirferð á nýjustu tölum um efnahagslegt vægi menningar og skapandi greina. Þar kom meðal annars fram að um 15–16 þúsund manns starfa í þessum greinum á Íslandi og ljóst að þær eru engin neðanmáls grein í íslenskum hagtölum.
Kristjana Rós Guðjohnsen, fagstjóri hjá Íslandsstofu, fjallaði um alþjóðlegt vægi menningar í kynningu á birtingargögnum og áhrifum á ferðamennsku. Nefndi hún sem dæmi að virði umfjöllunar gesta á Airways á einu ári, væru um 5 milljóna breskra punda beint í kynningarmál fyrir Ísland, eða yfir 800 milljónir. Nokkuð sláandi var í erindi hennar hversu lítið, eða í raun ekkert, Íslandsstofa hefur fram að þessu komið að stuðningi við alþjóðlegar listhátíðir utan höfuðborgarsvæðisins í markaðssetningu erlendis, nokkuð sem mikilvægt er að verði bætt úr.
Þrjú áhugaverð erindi fylgdu í kjölfarið frá aðilum sem starfa innan menningar og skapandi greina á Norðurlandi eystra:
- Ingimar Björn Eydal frá Castor Miðlun ræddi hvernig kvikmyndalist geti þjónað sem byggðastefna og hvernig miðlun sögumótandi efnis getur haft áhrif bæði heima og erlendis. Hann endaði sitt erindi með spurninguna, hvernig verður söguritunin ef engar sjónvarpsstöðvar eða dagskrárgerðarfólk verður í landsbyggðunum?
- Daníel Pétur Daníelsson frá Síldarminjasafninu sýndi fram á að áhrif safna ná langt út fyrir veggi þeirra, en safnið tekur á móti um 35.000 gestum árlega. Daníel setti heimsóknartölurnar í samhengi við eyðslu ferðamanna til að vekja athygli á tekjum sem önnur starfsemi í sveitarfélaginu nyti góðs af. Meðal neysla erlendra ferðamanna á Íslandi er ca. 43.000 kr á sólarhring. Afleiddar tekjur þeirra sem kaupa aðgöngumiða væri þá 1,5 milljarður á ári.
- Kristín Sóley Björnsdóttir frá Menningarfélagi Akureyrar talaði um „snjóboltaáhrif“ menningarstarfs. Þannig lýsti hún Hofi meðal annars sem lifandi húsi þar sem viðburðir og aðstaða til listsköpunar skapa tækifæri og auka búsetugæði. Áhrif Hofs hafa ekki verið greind í tölum, en á árinu voru Hörpuáhrifin greind og má lesa um þau hér.
Heilt yfir má segja að Föstudagsfundir SSNE hafi heppnast vel og er ætlunin halda áfram næsta vetur. Tillögur að umfjöllunarefnum eru alltaf vel þegnar.