Fara í efni

49 umsóknir bárust í Startup Landið

49 umsóknir bárust í Startup Landið

Fjölmargar umsóknir bárust í viðskiptahraðalinn Startup Landið,  en umsóknarfresti lauk á miðnætti síðastliðinn sunnudag. Startup Landið er sjö vikna viðskiptahraðall sem ætlaður er frumkvöðlum og nýsköpunarverkefnum á landsbyggðinni. Markmiðið er að efla nýsköpun og skapa vettvang fyrir hugmyndir sem geta vaxið og dafnað á landsbyggðinni.

Hraðallinn hefst 18. september og lýkur með lokaviðburði á Akureyri þann 30. október þar sem þátttakendur kynna verkefni sín. Á meðan á hraðlinum stendur fá teymin aðgang að leiðbeinendum, fræðslu og tengslaneti sem getur skipt sköpum í uppbyggingu og þróun verkefna þeirra.

Verkefnastjórn Startup Landsins fer nú yfir innsendar umsóknir og metur hvaða verkefni fá þátttöku í hraðlinum. Tilkynnt verður um valin teymi í lok þessarar viku.

„Það er virkilega gaman að sjá hversu mikill kraftur og frumkvæði býr í landsbyggðinni. Fjöldi umsókna sýnir að þörfin fyrir stuðning og vettvang fyrir nýsköpun er til staðar um allt land og við hlökkum til að vinna með þeim teymum sem komast áfram,“ segir í tilkynningu frá verkefnastjórn.

Umsóknir bárust víðsvegar að af landinu og má sjá dreifinguna hér að neðan. Þátttakan gefur sterka vísbendingu um að nýsköpun er í blóma um allt land.

Getum við bætt síðuna?