Fara í efni

Fjárfestahátíð Norðanáttar

Fjárfestahátíð Norðanáttar

Í gær var haldin fjárfestahátíð Norðanáttar á Siglufirði, Norðanátt er samstarfsverkefni SSNE, SSNV, Eims og RATA og er hátíðin haldin með stuðningi frá Umhverfis- orku- og loftlagsráðuneytinu.
Á fjárfestahátíðinni voru leiddir saman þrettán frumkvöðlar sem kynntu verkefni sín fyrir fjárfestum. Frumkvöðlarnir eru af öllu landinu og eru verkefnin mjög fjölbreytt, allt frá vindtúrbínum til apps fyrir hleðslustöðvar.

Fjárfestahátíðin er haldin í annað sinn, en í panel í ár komu fjögur fjárfestaverkefni sem tóku þátt í fyrra og deildu reynslu sinni og komu með ráð fyrir önnur nýsköpunarfyrirtæki. Sérstaklega er gaman að segja frá því að frumkvöðafyrirtækið MýSköpun sem var kynnt í fyrra gekk frá fjárfestasamningi upp á sviði á hátíðinni en til að tryggja samninginn voru fengnir tveir ráðherrar til að votta hann.

Sesselja frá Eimi og Kjartan frá Transition labs nýttu síðan tækifærið í panel með Áslaugu nýsköpunarráðherra og Guðlaugi Þór umhverfisráðherra til að tala fyrir heildstæðu umhverfi fyrir nýsköpun og að kerfin væru einfölduð, horfið væri frá endalausu styrkjaumhverfi til almennra reglna. Bæði Áslaug og Guðlaugur tóku vel í þessa brýningu og munu án efa láta verkin tala.

Eftir hádegi fór ráðstefnan yfir í bátahúsið þar sem nýsköpunarfyrirtækin fengu sitt tækifæri til að heilla fjárfesta. Hver frumkvöðull fékk aðeins fjórar mínútur til að kynna sitt verkefni og frábært var að sjá þessar kraftmiklu kynningar. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvaða verkefni voru kynnt. 

Getum við bætt síðuna?