Fara í efni

Febrúar ágrip frá framkvæmdastjóra SSNE

Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri SSNE
Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri SSNE

Febrúar ágrip frá framkvæmdastjóra SSNE

Febrúarmánuður var viðburðaríkur í starfsemi okkar. Úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs og ákvörðun um áhersluverkefni SSNE eru stórir viðburðir sem eru táknrænir fyrir þá miklu grósku, kraft og hugmyndaauðgi sem hér blómstrar. Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu þessara spennandi verkefna.
SSNE hélt starfsdag í mánuðinum þar sem unnið var með margvísleg verkefni sem snúa að innra starfi. Meðal annars ræddum við um skilvirk teymi, hvernig skilvirk teymi virka og hver einkenni óskilvirkra teyma eru. Við gerðum einnig margþætta könnun innan hópsins okkar á því hversu skilvirk við erum sem teymi en þannig fáum mat á stöðunni hjá okkur og getum í framhaldi af því sammælst um leiðir til að styrkja okkur sem teymi og gert aðgerðaáætlun til að ná því marki.

Stjórn SSNE átti fund með þingmönnum kjördæmisins 8. febrúar í kjördæmaviku þingsins. Farið var vítt og breitt yfir það sem efst er á baugi hjá landshlutasamtökunum og einnig var athygli vakin á ýmsum áskorunum sem blasa við. Voru þingmenn hvattir til að beita kröftum sínum í lausn þeirra. Ítrekaðar voru óskir um aukið og virkt samtal á milli þingmanna kjördæmisins og kjörinna fulltrúa sveitarfélaga og hefðum við gjarnan kosið að fá meiri og jákvæðari undirtektir af hálfu þingmanna.

Í lok febrúar hélt SSNE fund með bæjar- og sveitarstjórum og kjörnum fulltrúum sveitarfélaga eins og við gerum nú orðið ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. Á fundinum fór Vífill Karlsson yfir niðurstöður íbúakönnunar sem nánar er fjallað um hér í fréttabréfinu.

Unnið er að því að endurskoða Sóknaráætlun Norðurlands eystra í samræmi við umræður og ákvörðun á ársþingi 2020 með það að markmiði að einfalda hana og gera markvissari ásamt því að gera tillögu að aðgerðaáætlun til að framfylgja Sóknaráætlun. Tillögur að endurbættri Sóknaráætlun ásamt tillögu að aðgerðaáætlun verða lagðar fram á ársþingi SSNE í apríl.

Nú er að hefjast undirbúningur að gerð grænbókar um samgönguáætlun og hefur Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið óskað eftir fulltingi SSNE til að koma á fundum í landshlutanum og kalla að borðinu þá aðila sem mest geta lagt inn í þá vinnu. Það eru því næg og krefjandi verkefni á borði okkar sem og við fögnum því að fá þessi hlutverk.


Með kærri kveðju,
Eyþór Björnsson
Framkvæmdarstjóri SSNE

Getum við bætt síðuna?