Fara í efni

Ódýr varmaöflun með glatvarma frá kælikerfi PCC

Ódýr varmaöflun með glatvarma frá kælikerfi PCC

Eitt af þeim verkefnum sem hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði árið 2024, var verkefnið Glatvarmi á Bakka. Verkefnið Glatvarmi í Grænum iðngarði á Bakka er samstarfsverkefni Eims, PCC BakkiSilicon og Orkuveitu Húsavíkur. Markmið verkefnisins var að svara því hvort hagkvæmt sé að nýta glatvarma frá verksmiðju PCC BakkiSilicon á Bakka við Húsavík, ýmist í aðra iðnaðarstarfsemi eða fyrir hitaveitu á svæðinu.

Vinna af þessu tagi er kjarninn í starfsemi Græns iðngarðs á Bakka, þar sem markmiðið er að nýta alla auðlindastrauma, sem þegar hafa verið virkjaðir, til fulls, og að þeir nýtist inn í aðra starfsemi á svæðinu. Þetta er fyrsta skrefið í því að leggja grunn að samstarfi fyrirtækja innan garðsins um nýtingu orku og hráefna sem falla til við vinnslu fyrirtækja.

Verkefnið var unnið í samvinnu við Eflu verkfræðistofu sem sá um að greina gögn sem aðrir aðilar innan verkefnisins tóku saman, fyrir hagkvæmnigreiningu á föngun glatvarma sem myndast í kælikerfi PCC BakkiSilicon. Þessi varmi kemur úr kælikerfi ljósbogaofna PCC, sem kældir eru með vatni í lokaðri hringrás, en í dag er þessi varmi algjörlega ónýttur.

Niðurstöður verkefnisins sýna að með auðveldum hætti og lítilli fjárfestingarþörf má sækja 8-9 MW af varma eða 100 l/s af 50 °C vatni, án breytingar á núverandi kælikerfi. Þar með geta skapast stór tækifæri fyrir ýmiskonar rekstur innan Græns iðngarðs. Grófir útreikningar sýna fram á hagkvæmni þess að nýta þennan varma samanborið við það að bora eftir heitu vatni, sem er hin hefðbundna leið til varmaöflunar.

PCC BakkiSilicon hefur nú þegar sett í stað áframhaldandi vinnu á hagkvæmnigreiningu þar sem skoða á fýsileikann á því að sækja meiri varma annarsstaðar í framleiðsluferlinu. Þetta verkefni hefur sýnt fram á, svo ekki verður um villst að það getur líka borgað sig fjárhagslega að fullnýta auðlindir sem við erum alltof gjörn á að sóa.

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir verkefnastjóri Græns Iðngarðs á Bakka, Karen Mist Kristjánsdóttir - karen@eimur.is

Getum við bætt síðuna?