Fara í efni

Byggðastofnun leitar að sérfræðingi á sviði loftslagsmála

Byggðastofnun leitar að sérfræðingi á sviði loftslagsmála

Byggðastofnun leitar nú að réttu manneskjunni til að leiða aðlögunarverkefni íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Verkefnið er tilraunaverkefni sem unnið er í samstarfi við Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið, Veðurstofu Íslands og Skipulagsstofnun, auk þeirra fimm sveitarfélaga sem hafa verið valin til þátttöku. Tvö þátttökusveitarfélaganna eru á starfssvæði SSNE; Fjallabyggð og Akureyrarbær.

Hér má finna frekari upplýsingar um tilraunaverkefnið, en markmið verkefnisins er að aðstoða íslensk sveitarfélög í þeirri vinnu sem fram undan er við að greina áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga og móta aðgerðir til aðlögunar. Meðal þeirra áhrifa loftslagsbreytinga sem þegar er farið að gæta í byggðum landsins, og munu verða frekari áskorun þegar fram í sækir, eru aukin hætta á gróðureldum og aurskriðum, auknar öfgar í veðri, þurrkar, aftakaúrkoma, breytingar í vistkerfum á landi og í hafi og aukinn ágangur sjávar vegna hækkandi sjávaryfirborðs.

Þau viðfangsefni sem verða skoðuð sérstaklega á starfssvæði SSNE eru ágangur sjávar (Fjallabyggð og Akureyrarbær), aurskriður, skógar- og kjarreldar (Akureyrarbær). Sá lærdómur sem verður dreginn af hverju viðfangsefni verður síðan hægt að yfirfæra til annarra sveitarfélaga.

Starfið er auglýst án staðsetningar, frekari upplýsingar um stöðuna og þær kröfur sem gerðar eru til starfskraftsins má finna á vef Byggðastofnunnar.

Getum við bætt síðuna?