Fara í efni

Byggðastofnun auglýsir eftir umsóknum um styrk í Byggðarannsóknasjóð

Byggðastofnun auglýsir eftir umsóknum um styrk í Byggðarannsóknasjóð

Byggðastofnun auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Byggðarannsóknasjóði til rannsókna á sviði byggðamála og þurfa þær að berast eigi síðar en fimmtudaginn 17. mars n.k. Til úthlutunar eru 10 m.kr.

Byggðastofnun hefur veitt styrki úr Byggðarannsóknasjóði allt frá árinu 2015. Alls hafa 28 verkefni hlotið styrk á árunum 2015-2021 að heildarfjárhæð 68,9 m.kr. Á árinu 2021 fengu fjögur verkefni styrk:

  • Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi: Innflytjendur og staða þeirra á vinnumarkaði í Covid-kreppu: Hver er staða innflytjenda á vinnumarkaði landsbyggðarinnar í samanburði við höfuðborgarsvæðið á tímum Covid? Í verkefninu er staða innflytjenda er á vinnumarkaði skoðuð og aflað gagna til að hanna móttökuáætlun og marka stefnu í málefnum innflytjenda.
  • Austurbrú: Náttúruhamfarir og félagsleg seigla - Seyðisfjörður. Greina á og kortleggja afleiðingar náttúruhamfaranna á Seyðisfirði með tilliti til samfélagslegrar seiglu.
  • Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA): Rannsókn á launamun hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum og hjúkrunarfræðinga á Sjúkrahúsinu á Akureyri með aðferðum jafnlaunagreiningar. Bæta á þekkingu á launamun starfsmanna á hinum íslenska vinnumarkaði og varpa betra ljósi á þá umræðu sem hefur átt sér stað undanfarin ár um launamun milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.
  • Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi: Margur er knár þó hann sé smár: Hvað útskýrir óvenju ólíka velgengni nokkuð sambærilegra fámennra landsvæða eins og Dala- og V-Húnavatnssýslu? Komast á að því hvort læra megi af samanburði Dalabyggðar og Húnavatnssýslu og yfirfæra þekkinguna á önnur landsvæði sem hafa komið illa út úr mælingum Íbúakönnunarinnar.

Í umsóknum skal meðal annars koma fram greinargóð lýsing á rannsókninni, markmiðum hennar, ávinningi, nýnæmi og hvernig hún styður við tilgang sjóðsins. Við mat á umsóknum er meðal annars litið til hvernig verkefnið styður við markmið sjóðsins, vísindalegs- og hagnýts gildis þess og hæfni umsækjenda.

Umsækjendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnanir eða aðrir lögaðilar.

Styrkir verða veittir til eins árs. Sjóðurinn hefur allt að 10 milljónir króna til úthlutunar. Samkvæmt reglum sjóðsins er miðað við að styrkirnir séu ekki færri en þrír og ekki fleiri en fimm í hvert sinn.

Umsóknareyðublöð má nálgast hér.
Reglur um sjóðinn má nálgast hér.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður K. Þorgrímsdóttir

Netfang: sigga@byggdastofnun.is. Sími 4555461 og 8697203.

Eldri styrkveitingar má sjá hér.

Getum við bætt síðuna?