Byggðaráðstefnan 2025 haldin í dag í Skjólbrekku
Byggðaráðstefnan 2025 haldin í dag í Skjólbrekku
Byggðaráðstefnan 2025 fer fram í dag, 4. nóvember, í Skjólbrekku í Mývatnssveit. Að ráðstefnunni í ár standa Byggðastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samband sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, í samvinnu við Þingeyjarsveit.
Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er „Félagslegur fjölbreytileiki samfélaga – jafnvægi, áskoranir eða vannýtt sóknarfæri?“ og verður sjónum beint að mikilvægi fjölbreytileika í samfélagsuppbyggingu, þróun byggða og framtíðarsýn fyrir líf og störf í öllum landshlutum. Þátttakendur munu fjalla um tækifæri og áskoranir sem tengjast breyttri lýðfræði, fjölbreyttum samfélögum, þjónustu við íbúa og mikilvægi samstarfs milli ríkis, sveitarfélaga og heimafólks í byggðaþróun.Streymi af ráðstefnunni.
Í kjölfar ráðstefnunnar hefst árlegur haustfundur Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna á sama stað, dagana 5.–6. nóvember. Á fundinum koma saman fulltrúar landshlutasamtaka ásamt fulltrúum Byggðastofnunar. Á fundinum í ár verður meðal annars rætt um byggðaáætlun, en að auki er lögð áhersla á sameiginleg markmið, samstarf þvert yfir landshluta og áframhaldandi uppbyggingu í íslenskum byggðum.
SSNE óskar þátttakendum bæði byggðaráðstefnunnar og haustfundarins góðs fundar og árangursríkra umræðna.