Fara í efni

Borgarafundur á Þórshöfn

Starfshópurinn ásamt sveitarstjórnarfulltrúum við Font, Langanesi. (Mynd/GMG).
Starfshópurinn ásamt sveitarstjórnarfulltrúum við Font, Langanesi. (Mynd/GMG).

Borgarafundur á Þórshöfn

Starfshópur á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sótti Langanesbyggð heim og fundaði með íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Starfshópnum er falið það hlutverk að vinna tillögur til ráðherra um framgang mála á Langanesi, sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins, með það að markmiði að efla samfélagið. Eiga tillögur starfshópsins m.a. að snúa að friðlýsingu á hluta Langaness, t.d. með stofnun þjóðgarðs, eflingu hringrásarhagkerfisins og grænni atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Jafnframt verði hugað að bættu orkuöryggi svæðisins með tillögum er snerta dreifi- og flutningskerfi raforku, jarðhitaleit og aukna orkuöflun innan svæðis.

Heimsóknin hófst í blíðskaparveðri með ferð út á Langanes, með viðkomu m.a. að Skoruvíkurbjargi, Fonti og eyðiþorpinu Skálum, en eins og kunnugir vita er svæðið örlátlega skreytt náttúruperlum og þrungið sögu. Þá voru frystihús og fiskimjölsverksmiðja Ísfélagsins á Þórshöfn heimsótt, en félagið er langsamlegast stærsti orkukaupandinn innan sveitarfélagsins og er verksmiðjan ein sú síðasta á landinu sem ekki hefur verið rafvædd og gengur því enn fyrir olíukötlum. Heimsókninni lauk svo með samráðsfundi starfshópsins með sveitarstjórnarfólki og opnum borgarafundi þar sem kallað var eftir sjónarmiðum íbúa.

Vinna starfshópsins gengur vel að sögn Njáls Trausta Friðbertssonar, þingmanns Norðausturkjördæmis og formanns starfshópsins. Starfshópinn skipa auk Njáls, þau Berglind Harpa Svavarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Þá starfar með hópnum Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Getum við bætt síðuna?