Bókun stjórnar SSNE um stöðu heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi eystra
Bókun stjórnar SSNE um stöðu heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi eystra
Á 78. fundi stjórnar SSNE sem haldinn var 3. desember síðastliðinn var lagt fram erindi og bókun frá sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar frá 20. nóvember vegna stöðu Kristnesspítala og þau neikvæðu áhrif sem breytingarnar kunna að hafa á aðgengi íbúa á Norðurlandi til endurhæfingarþjónustu. Fleiri sveitarstjórnir á svæðinu hafa tekið undir bókun Eyjafjarðarsveitar á síðustu vikum.
Bókun stjórnar SSNE vegna málsins er eftirfarandi:
Stjórn SSNE tekur undir áhyggjur Eyjafjarðarsveitar af því að niðurskurður á sólarhringsþjónustu og lokun endurhæfingarúrræða um helgar á Kristnesspítala geti skert raunverulegt aðgengi margra skjólstæðinga að nauðsynlegri þjónustu.
Stjórn SSNE lýsir jafnframt yfir áhyggjum af þeirri heildarmynd sem blasir við í heilbrigðisþjónustu á svæðinu; mönnunarvandi, takmarkað pláss á stofnunum og brothættur rekstrargrundvöllur lykilúrræða eins og Kristnesspítala skapa óásættanlega óvissu fyrir íbúa svæðisins.
Stjórnin telur brýnt að heilbrigðisyfirvöld bregðist skjótt við og tryggi að aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landinu öllu verði ekki skert heldur styrkt, og að sérstaklega verði hugað að stöðu og framtíð endurhæfingarþjónustu á Norðurlandi. Stjórn SSNE hvetur heilbrigðisráðherra til að grípa til viðeigandi aðgerða án tafar, í samráði við viðkomandi stofnanir og sveitarfélög á svæðinu, með það að markmiði að tryggja öryggi, heilsu og lífsgæði íbúa og styðja við sjálfbæra nýtingu heilbrigðiskerfisins.
Nánari upplýsingar vegna bókunarinnar veitir formaður stjórnar eða framkvæmdastjóri SSNE.