Fara í efni

Ávarp samtímans í beinni

Fiðringur verður í Menningarhúsinu Hofi þann 5. maí nk.
Fiðringur verður í Menningarhúsinu Hofi þann 5. maí nk.

Ávarp samtímans í beinni

Við á Norðurlandi eystra erum lánsöm með framtakssamt fólk sem er annt um samfélagið og gefur sér tíma til að hlúa að þeim sem munu sjá um okkur og samfélagið í framtíðinni. Hún María Pálsdóttir er frumkvöðull sem hefur ýtt úr vör Fiðringi. Verkefnið snýst um það að innleiða í fyrsta sinn hæfileikakeppni grunnskólanna á Norðurlandi í anda Skrekks á höfuðborgarsvæðinu og Skjálftans á Suðurlandi. Stefnt er að því að Fiðringur verði árviss hæfileikakeppni grunnskólanna á Norðurlandi eystra en fyrsta árið eru það grunnskólar á Akureyri og nærsveitum sem taka þátt og módelið prófað meðal annars með það að markmiði að þróa og undirbúa Fiðring 2023 með þátttöku tækifærum allra grunnskóla á svæðinu.

Eða með orðum leikarans og frumkvöðulsins Maríu: ,,Í 30 ár hafa krakkar utan Reykjavíkur horft með öfundaraugum á Skrekks ævintýrið vaxa og dafna og margir óskað sér þess að geta tekið þátt. Nú látum við þann draum verða að veruleika og  þjálfum börnin í lýðræðislegum vinnubrögðum, skapandi hugsunarhætti, samvinnu og svo mörgu öðru um leið og við gefum þeim tækifæri á að skapa góðar minningar á unglingastigi sem nær hámarki í undankeppnum svæðanna og svo úrslitakeppni í HOFI þar sem ungmennin ávarpa samtímann í beinni. “

Fiðringurinn stigmagnast en aðeins vika í lokaviðburðinn í Hofi. Inn á instagram aðgangi Fiðrings má heyra krakkana kynna atriðin sín en umfjöllunarefni og útfærslur eru alfarið í þeirra höndum; ávarp samtímans í beinni. Kynnar verða leikararnir Árni Beinteinn og Þórdís Björk Þorfinsdóttir. Krakkarnir kusu sjálfir Fiðringslag og mæta sigurverarnir sjálfir, Jói P. og Króli og halda uppi stemningu ásamt Röggu Rix sem hitar upp.

Í Fiðringi fá krakkarnir tækifæri til að prófa sig áfram í hinum ýmsu verklegu greinum og upplifa mikilvægi þeirra fyrir heildina. Sérhver hugmynd, sérhvert atriði þarfnast tæknifólks; hljóðgúrúa, ljósameistara, sviðsmanna og tæknibrellugrallara, svo ekki sé talað um hár- og förðunarfólk, leikgerva- og búningafólk, samfélagsmiðlasnillinga, sviðsmyndar- og myndlistartöffara, peppara og leiðtoga. Svo stórt samvinnuverkefni gefur nemendum tækifæri á að auka samvinnu- og samskiptahæfni sína sem er ómetanlega dýrmætt fyrir alla framtíð þeirra og á eftir að koma þeim vel í hvers kyns störfum. 

Á facebook síðu Fiðrings má fylgjast með aðdraganda fyrstu keppninnar sem er afar fjölbreyttur og kemur inn á ýmsar atvinnugreinar. Síðustu færslur fjalla til dæmis um hönnunarkeppni baksviðspassa og farandverðlaungrips Fiðrings. Anna Lóa Sverrisdóttir nemandi í 9. bekk Brekkuskóla á Akureyri er skaparinn á bakvið verðlaunatillögu verðlaunagripsins og Amanda Eir Steinþórsdóttir nemandi í 10. bekk Naustaskóla á Akureyri vann baksviðspassakeppnina í ár. Við hjá SSNE óskum þessu upprennandi listakonum til hamingju!

 

Það þarf frjóan huga og skapandi hugsun til að takast á við krefjandi verkefni framtíðarinnar. Í Fiðringsferlinu fá krakkar tækifæri til að æfa sköpunarvöðvann, vinna lýðræðislega saman við að velja hugmynd og þróa hana, æfa og að lokum flytja. Ávinningur felst í valdeflingu ungs fólks, auknu samfélags- og menningarlæsi og kynningu á atvinnutækifærum framtíðarinnar.

 

Fiðringur hlaut styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra.

Getum við bætt síðuna?