Fara í efni

Átta norðlensk verkefni hlutu styrk úr Lóunni

Átta norðlensk verkefni hlutu styrk úr Lóunni

Úthlutun Lóunnar – styrkja til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni var úthlutað í gær. Hlutverk Lóunnar er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni á forsendum svæðanna sjálfra. 25 verkefni hlutu styrk í ár að heildarfjárhæð 100 milljónir.

Átta norðlensk verkefni hlutu styrk að þessu sinni að heildarfjárhæð 32.850.000 milljón, þau eru:

Markaðsrannsókn og skráning á lækningatækjunum ChitoCare medical í Bandaríkjunum, 5.800.000 kr. Markaðsrannsókn sem kannar hvernig lækningatækið passar inn á markaðinn og hvernig notkun þess fellur að endurgreiðslukerfi bandaríska sjúkratryggingakerfisins.

Iðnaður & endurnýting, 3.570.000 kr. „Iðnaður & endurnýting “ snýst um átak í svæðisbundinni nýsköpun á grunni hliðarafurða iðnaðar á Húsavík. Áhersla á iðnaðarsvæðið á Bakka og svæðisbundinn matvælaiðnað. Frumkvöðlasetrið Hraðið, m.a. með samstarfsaðilunum PCC og KLAK-Iceandic startups, er notað til að leiða fram nýjar hugmyndir með „Hakkaþon“ og öðrum verkfærum aðferðafræði nýsköpunar.

Styrjukavíar, 8.210.000 kr. Hið Norðlenzka Styrjufélag var stofnað með það að markmiði að framleiða hágæða styrjukavíar á sjálfbæran og umhverfisvænan máta úr einni verðmætustu fisktegund heims. Verkefnið snýr að hámörkun gæða styrjukavíars unnum úr hrygnum úr sjálfbæru "no-kill" fiskeldi.

Nord Plast Plus, 7.110.000. Nord Plast Plus mun þróa pólýhýdroxýalkanóat samsett efni sem nota hamptrefjar og staðbundin úrgang eins og krabbaskel til að framleiða sterkara lífplast til notkunar og sölu á markaði.

STEAM ÍSLAND útbreiðsla námsvistkerfa til eflingar samfélaga, 4.000.000 kr. Verkefnið STEAM Ísland snýst um útbreiðslu á samfélagslegum STEAM námsvistkerfum um landið, til eflingar samfélaga til farsællar framtíðar og byggir á reynslu tilraunaverkefnisins STEM Húsavík, sem starfar eftir STEM Learning Ecosystems líkaninu og hefur náð góðum árangri og starfað farsællega síðastliðið ár.

Þróun á lífrænum áburði úr staðbundnum lífmassa, 1.160.000. Verkefnið miðar að því að þróa sérstakan, hágæða, köfnunarefnisríkan, lífrænan áburð sem nýtir staðbundinn lífmassa og grænar orkuauðlindir. Lausnin getur hjálpað til við að draga úr því að treysta á innfluttan tilbúinn áburð, sem er dýr og hefur umhverfisáhrif, og stuðlar að grænni framtíð og hringlaga hagkerfi á Íslandi.

Beislum kraftinn - hagnýting rafíþrótta til eflingar færni 18-29 ára, 1.500.000 kr. Í verkefninu verður eftirsóknarverð starfsfærni s.s. teymisvinna, leiðtogafærni, samskiptafærni, lausnaleit, frumkvöðlahugsun, skapandi hugsun og stefnumótandi hugsun þjálfuð og þróuð í gegnum rafíþróttir.

Framleiðsla og nýting á lífkolum, 1.500.000 kr. Rannsókn og framleiðsla á nýtingarmöguleikum á lífkolum. Afgangsviður og trjáviður úr grisjunum nýtt og skoðað hvernig lífkol geta verið jarðvegsbætir í akuryrkju sem gæti leitt til minni áburðarnotkunar, til kolefnisbindingar í jarðvegi og til að minnka mengun frá kísilmálmframleiðslu.

SSNE óskar styrkþegum innilega til hamingju með styrkina sína.

Starfsfólk SSNE óskar styrkþegum innilega til hamingju með styrkina sína og minnir jafnframt á ráðgjöf sem starfsfólk sinnir á starfssvæðinu öllu, sjá nánar hér.

Getum við bætt síðuna?