Fara í efni

Árlegur fundur menningarfulltrúa landsins

Vigdís Rún Jónsdóttir SSNE, Ingibergur Guðmundsson SSNV og Björk Guðjónsdóttir SSS voru leyst út með…
Vigdís Rún Jónsdóttir SSNE, Ingibergur Guðmundsson SSNV og Björk Guðjónsdóttir SSS voru leyst út með þökkum og blómum fyrir vel unnin störf

Árlegur fundur menningarfulltrúa landsins

Dagana 20. til 21. maí var fundur menningarfulltrúa landshluta haldinn á Suðurnesjum. Dagskráin var þétt og vel skipulögð með gagnlegum fundum, áhugaverðum kynningum og skemmtilegum heimsóknum.  

Á fimmtudagsmorgun var fundað í starfsstöð SSS í Ásbrú. Þátttakendur voru ellefu og komu úr öllum landshlutum. Baldur Þórir Guðmundsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti var gestur fundarins þar sem var rætt um hlutverk menningarfulltrúa í landsbyggðunum og byggðaáætlun.

Kynnt voru vel heppnuð áhersluverkefni sóknaráætlunar á sviði menningar úr öllum landshlutum en meginefni fundarins var umræða um hlut menningar í byggðaáætlun sem nú er í endurskoðun og umsagnarferli.  Eftir hádegi lá leiðin í Garð, þar sem Mireya Samper tók á móti hópnum og kynnti það blómlega menningarlíf sem þar dafnar, sagði frá listahátíðinni Ferskum vindum sem haldin var í 6. sinn í desember og janúar sl.  Næst heimsótti hópurinn Þekkingarsetrið í Sandgerði þar sem Hanna María Kristjánsdóttir sagði frá starfsemi setursins og Sölvi Rúnar Vignisson leiddi hópinn um húsakynnin og sagði frá rannsóknum sem þar eru stundaðar.  Duus safnahús, lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar var næsti viðkomustaður. Þar Helga Þórsdóttir, safnstjóri listasafnsins hópinn í gegnum þær fjölmörgu sýningar sem þetta mikla hús hefur að geyma.  Leiðangur dagsins endaði svo í Hljómahöllinni, þar sem Tóma Young kynnti starfsemina í þessari menningarmiðstöð sem hýsir m.a. Rokksafn Íslands, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og félagsheimilið Stapa.

Á föstudagsmorgun var haldið til Grindavíkur. Þar tók Kristín María Birgisdóttir upplýsinga og markaðsfulltrúi á móti hópnum í Kvikunni, auðlinda- og menningarhúsi, og sagði frá áherslum Grindavíkur í menningarmálum.  Eftir stuttan framhaldsfund í Kviku skoðaði hópurinn hönnun og handverk í heimsóknum til Kristinsson og Vigt.  Dagskránni lauk svo með hádegisverði á veitingahúsinu hjá Höllu. Þar voru þrír menningarfulltrúar sem nú eru að láta af störfum kvaddir með blómvöndum, þar á meðal Vigdís Rún Jónsdóttir sem síðast gegndi starfi menningarfulltrúa SSNE.

Samþykkt var á fundinum að senda inn tillögur að breytingum á hvítbók um byggðaáætlun. Í umsögn kemur fram að menningarfulltrúar landshluta fagni vinnu og endurskoðun vegna hvítbókar en lýsa vonbrigðum með hve menningarmál séu fyrirferðarlítil þar og kalla eftir úrbótum.  

Dagskrá og utanumhald var allt til fyrirmyndar og kunnum við gestgjöfunum hjá Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum hinar mestu þakkir fyrir.

Getum við bætt síðuna?