Fara í efni

Árangur næst þegar flestir róa í sömu átt

Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar SSNE
Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar SSNE

Árangur næst þegar flestir róa í sömu átt

Ágrip frá formanni stjórnar

Norðurland eystra nær frá Siglufirði í vestri til Bakkafjarðar í austri. Innan svæðisins búa um 30 þúsund manns í 13 sveitarfélögum. Byggðirnar í landshlutanum eru fjölbreyttar, Akureyri gegnir þar ákveðinni sérstöðu sem svæðisborg, þá eru á svæðinu stærri bæir, minni bæir, brothættar byggðir og dreifbýli. Okkar starf byggir á þeirri hugmyndafræði að ríkir sameiginlegir hagsmunir séu fyrir hendi í landshlutanum og að sem liðsfélagar séum við líklegri til þess að ná þeim slagkrafti sem til þarf til þess að ná árangri fyrir hönd íbúa og atvinnulífs á öllu svæðinu.

Svæðið okkar er fjölbreytt og gjöfult og finna má bæði áskoranir og tækifæri á hverju strái. Heimafólk á svæðinu hefur mótað sóknaráætlun sem byggir á sameiginlegri framtíðarsýn. Það er ákaflega mikilvægt að hafa skýrt leiðarljós, en það er ekki síður mikilvægt að setja fram skýr markmið og mælanlega mælikvarða til þess að skapa grundvöll markvissrar sóknar. Starfsfólk samtakanna vinnur ötullega að því að framfylgja markmiðum sóknaráætlunar samtakanna, auk þess að skapa mikilvægan samráðsvettvang hagaðila á svæðinu. Samtal og samráð getur verið tímafrekt, en það er engu að síður ákaflega verðmætt, því það er einfaldlega mun líklegra að árangur náist þegar sem flestir róa í sömu átt.

Þegar kemur að því að róa í sömu átt, þá skiptir ekki aðeins máli að eiga í öflugu samtali og samráði innan svæðisins, heldur einnig utan þess og þá ekki síst við ríkisvaldið. Ríkisvaldið á hrós skilið fyrir hvernig það hefur nálgast það að færa heimafólki í landshlutunum aukið vald og ábyrgð á eigin framtíð í gegnum starf landshlutasamtaka og sóknaráætlanir. Þá er vel þess virði að nefna að vinna við Byggðaáætlun var faglega unnin og gerð í öflugu samráði við hagaðila. Það skiptir nefnilega töluvert miklu máli að við og ríkisvaldið séum að róa nokkurn vegin í sömu átt. Það var því sérstaklega gleðilegt að sjá það skrifað í nýjum stjórnarsáttmála að vinna eigi að eflingu sóknaráætlana landshlutanna. Við bindum að sjálfsögðu vonir við að það þýði að ekki verði áframhald á niðurskurði fjármagns til sóknaráætlana og að fleiri ráðuneyti muni í framtíðinni komi að fjármögnun hennar. 

Að lokum, sóknaráætlun Norðurlands eystra byggir á þremur grunnstoðum: atvinnuþróun og nýsköpun, menningu og umhverfismálum. Þá er samstaða um að undirliggjandi langtímamarkmiðið sé fólgið í því að auka hamingju í landshlutanum. Enda er hamingjan kannski hinn endanlegi mælikvarði þess hvort að raunverulegur árangur náist.

Með ósk um gleðileg jól og farsælt, hamingjuríkt nýtt ár

Hilda Jana Gísladóttir
Formaður stjórnar SSNE, samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra

Getum við bætt síðuna?