Áramótapistill framkvæmdastjóra
Áramótapistill framkvæmdastjóra
Nýtt ár – ný tækifæri
Fyrir mörgum eru áramótin tími uppgjörs og nýs upphafs. Þegar litið er yfir liðið árið er margt sem gefur tilefni til bjartsýni og stolts yfir Norðurlandi eystra og þeim fjölbreytta hópi fólks sem hér býr og starfar.
Þrátt fyrir ýmsar áskoranir á síðasta ári hefur landshlutinn sýnt styrk og seiglu og er raunar margt sem bendir til fjölmargra tækifæra til uppbyggingar á þessu nýja ári. Þannig höfum við á undanförnum árum séð aukna fjölbreytni í atvinnulífi, öflugra frumkvöðlastarf og aukna nýsköpun, auk þess sem víða í landshlutanum hefur orðið umtalsverð íbúafjölgun. Þetta er ekki sjálfgefið, heldur afrakstur ötullar vinnu sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana og íbúa sem trúa á svæðið sitt og tækifærin sem hér eru til staðar. Sú trú er ein sterkasta auðlind okar á Norðurlandi eystra.
Á liðnu ári hefur SSNE, í nánu samstarfi við sveitarfélög og fjölmarga samstarfsaðila, unnið að fjölbreyttum verkefnum sem miða að því að styrkja landshlutann til framtíðar. Byggðaþróun hefur verið leiðarljós í starfi okkar, þar sem atvinnuþróun og nýsköpun, menning og samfélagslegir innviðir hafa verið í forgrunni, í takt við markmið og áherslur sóknaráætlunar Norðurlands eystra.
Samvinna sveitarfélaga er eitt af okkar megin verkefnum og lykillinn að árangri í mörgum og stórum verkefnum. Sú samvinna verður ekki síst mikilvæg á komandi vikum þar sem stór mál sem varða hagsmuni landshlutans verða til umfjöllunar á Alþingi í vor. Þar má sérstaklega nefna nýja tillögu innviðaráðherra til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2026-2040 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2026-2030, en sú þingályktun kemur til með að hafa heilmikil áhrif á búsetuskilyrði, atvinnulíf og öryggi íbúa. SSNE mun áfram vinna markvisst að því að sjónarmið Norðurlands eystra heyrist skýrt í þeirri umræðu og endurspeglist í endanlegri þingsályktun.
Þá eru sveitarstjórnarkosningar framundan í vor, sem marka tímamót og skapa tækifæri til endurnýjunar og skýrrar framtíðarsýnar næstu fjögur árin. Við sveitarstjórnarkosningar verða alltaf umtalsverðar breytingar hjá SSNE, en þá kemur inn ný stjórn samtakanna og nýir þingfulltrúar sveitarfélaganna sömuleiðis.
Á nýju ári horfum við fram á spennandi verkefni og ný tækifæri, en starfsemi SSNE á árinu má kynna sér til að mynda með því að skoða starfsáætlun SSNE 2026. Ég hvet ykkur líka til að fylgjast áfram með heimasíðunni okkar og samfélagsmiðlum, en þar birtast alltaf fréttir af því helsta sem er í gangi hverju sinni. Með samvinnu, skýra stefnu og trú á fólki og á svæðið munum við áfram vinna að því að efla Norðurland eystra — samfélag þar sem er gott að búa og starfa til framtíðar.
Við hjá SSNE hlökkum til áframhaldandi samstarfs á nýju ári og óskum ykkur alls hins besta á árinu sem er að hefjast.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri SSNE